Í frétt Vegagerðarinnar kemur fram að verktakinn muni hefja undirbúning fljótlega en framkvæmdir hefjast af krafti síðsumars 2023. Stefnt er að því að verkinu verði að fullu lokið í lok júní 2026.
Þótt verklok séu áætluð 2026 sagði Jón Heiðar Gestsson, verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni, í viðtali við Stöð 2 í mars að reynt yrði að opna megnið af Reykjanesbrautinni árið 2025. Síðasti kaflinn, hálfur kílómetri í kringum Straumsvík, yrði svo opnaður sumarið 2026

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, HS Veitna, Mílu, Orkufjarskipta, Ljósleiðarans, Carbfix og Veitna.
Í því felst breikkun Reykjanesbrautar á um 5,6 kílómetra kafla. Inni í verkinu er einnig bygging brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi.

Á Reykjanesbraut verða gerð mislæg gatnamót við Rauðamel en þar er að finna nýtt framtíðar byggingarsvæði Hafnarfjarðar. Mislæg gatnamót við Straumsvík verða stækkuð og bætt við tengingu að iðnaðarsvæði Hafnarfjarðar við Álhellu. Einnig verða gerðir eftirlitsstaðir við Reykjanesbraut og stofnstígur fyrir gangandi og hjólandi milli Hraunavíkur og Straums ásamt tengingu við Straumsvík.
Svo skemmtilega vill til að það voru einmitt Íslenskir aðalverktakar sem upphaflega hófu lagningu Reykjanesbrautar fyrir rúmum sextíu árum, eins og fram kom í frétt Stöðvar 2 af opnun tilboða í síðasta mánuði, sem má sjá hér:
Myndband Vegagerðarinnar um verkið má sjá hér: