Innlent

Ríkið mátti ekki lækka laun dómara

Árni Sæberg skrifar
Settir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur felldu dóm í málinu í dag.
Settir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur felldu dóm í málinu í dag. Vísir/Vilhelm

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari vann í dag mál á hendur íslenska ríkinu, sem hún höfðaði eftir að henni var tilkynnt um að hún hefði fengið ofgreidd laun. 260 af æðstu embættismönnum þjóðarinnar fengu sams konar tilkynningu.

Fjársýslan greindi frá því í júlí í fyrra að 260 af æðstu embættismönnum landsins hefðu fengið ofgreidd laun um það sem nam um 105 milljónum króna. Launin voru ofgreidd vegna þess að fjársýslan notaðist ekki við lögbundið viðmið um laun þjóðkjörinna manna, ráðherra og tiltekinna embættismanna frá því að lög um þau tóku gildi árið 2019.

Ástríður, sem er dómari við Héraðsdóm Reykjaness, vildi ekki una því að þurfa að endurgreiða hluta greiddra launa, 550 þúsund krónur og að laun hennar yrðu lækkuð um 34 þúsund krónur á mánuði. Því höfðaði hún mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar ákvarðana Fjársýslu ríkisins um breytta útreikningsaðferð, lækkun launa hennar og endurkröfuna.

Allir dómarar landsins vanhæfir

Eðli málsins samkvæmt voru allir dómarar landsins taldir vanhæfir til þess að fjalla um málið, enda mun það að öllum líkindum hafa áhrif á launakjör þeirra allra.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, úrskurðaði að allir dómarar við dómstólinn væru vanhæfir til þess að fara með málið í desember síðasta árs.

Eftir þann úrskurð var Gunnar Þór Pétursson settur dómari í málinu. Hann var settur dómari við Landsrétt síðasta vor og við EFTA-dómstólinn frá 1. júlí í fyrra. Þá var hann framkvæmdastjóri hjá eftirlitsstofnun EFTA frá 2017 til 2020. 

Þá voru þau Berglind Svavarsdóttir lögmaður og Sindri M. Stephensen dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík einnig settir dómarar í málinu.

Fallist á allar kröfur dómarans

Í niðurstöðukafla dómsins segir að ágreiningur aðila hafi lotið að þremur ákvörðunum ríkisins og kröfur Ástríðar um ógildingu þeirra.

Í fyrsta lagi krafðist Ástríður að ákvörðun um nýja útreikningsaðferð á launum hennar yrði ógild á grundvelli þess að hún væri stjórnvaldsákvörðun sem hefði ekki verið tekin með lögmætum hætti. 

Ríkið hafnaði því að um stjórnvaldsákvörðun væri að ræða þar sem ákvörðunin hafi lotið að framkvæmd laga, grundvallist á settum lögum og varði ekki rétteða skyldur tiltekins aðila.

Settir dómarar töldu að um stjórnvaldsákvörðun væri að ræða, meðal annars vegna þess að ekki yrði fallist á það með ríkinu að staða Ástríðar, sem er skipaður embættisdómari, hafi þá þýðingu að hún geti ekki talist í stöðu borgara gagnvart stjórnvaldi og sé þannig ekki aðili stjórnsýslumáls.

Þá segir í dóminum að við töku ákvörðunarinnar hafi ríkið ekki fylgt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, þar sem Ástríði var ekki tilkynnt um að hún væri til meðferðar og gat því ekki nýtt lögmæltan andmælarétt sinn.

„Telja verður umrædda annmarka verulega. Þegar af þessum sökum er fallist á fyrstu aðalkröfu stefnanda um ógildingu umræddrar ákvörðunar,“ segir í dóminum.

Hvað varðar kröfu Ástríðar um ógildingu ákvörðunar um að krefja hana um endurgreiðslu meintra ofgreiddra launa segir að ekki hafi verið hægt að líta á kröfuna sem svo að um hana gildi eingöngu hefðbundin sjónarmið kröfuréttar. Hún sé samofin ákvörðun um breyttan launaútreikning.

Þá segir að sömu rök, varðandi málsmeðferð, eigi við um aðra kröfu og fyrstu, að breyttu breytanda. Því var einnig fallist á kröfu Ástríðar og ákvörðun um endurkröfu ógilt.

Loks krafðist Ástríður þess að ákvörðun um að laun hennar lækkuðu úr 1.646.286 krónum í 1.612.112 krónur yrði ógilt.

Dómarar féllust á þá kröfu í ljósi þess að þegar hafði verið fallist á fyrstu aðalkröfuna um ákvörðun um breyttan launaútreikning.

Þá var ríkinu gert að greiða Ástríði 1,7 milljónir króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×