Fótbolti

Anna Björk og stöllur unnu stórsigur í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Anna Björk Kristjánsdóttir lék allan leikinn í vörn Inter.
Anna Björk Kristjánsdóttir lék allan leikinn í vörn Inter. Vísir/Getty

Anna Björk Kristjánsdóttir og stöllur hennar í Inter unnu afar sannfærandi 4-0 sigur er liðið tók á móti Alexöndru Jóhannsdóttur og liðsfélögum hennar í Fiorentina í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Anna Björk var í byrjunarliði Inter í dag og lék allan leikinn í hjarta varnarinnar. Alexandra byrjaði hins vegar á varamannabekk Fiorentina og kom inn á þegar rétt rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.

Þrátt fyrir öruggan sigur þurftu heimakonur í Inter tæpar 40 mínútur til að brjóta ísinn. Annað mark liðsins leit svo dagsins ljós þegar um 25 mínútur voru til leiksloka áður en liðið bætti við tveimur mörkum á lokamínútum leiksins.

Tabita Chawinga skoraði öll mörk seinni hálfleiksins fyrir Inter, ásamt því að leggja upp fyrsta markið fyrir Elisa Polli í fyrri hálfleik.

Inter situr nú í næst neðsta sæti efri hluta ítölsku deildarinnar með 39 stig eftir 24 leiki, jafn mörg og Fiorentina sem situr í neðsta sæti, en með betir markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×