Wallace sagði á breska þinginu í dag að vopnasendingarnar gerðu Úkraínumönnum auðveldar að verja sig gegn grimmilegri innrás Rússa
Flaugarnar gera Úkraínumönnum kleift að granda skotmörkum á öllu því svæði sem Rússar hafa hernumið í Úkraínu. Krímskagi er þar talinn með.
Stýriflaugarnar eru af gerðinni Storm Shadow en þær geta borið um 450 kílóa sprengihleðslu eru sagðar drífa rúma 250 kílómetra. Þær eru framleiddar af fyrirtækjum í Bretlandi og í Frakklandi og er hver þeirra sögð kosta um tvær milljónir punda. Eldflaugarnar hafa meðal annars verið notaðar í Írak eftir innrásina 203 og í Líbíu og í Sýrlandi.
Ekki liggur fyrir hve margar stýriflaugar um er að ræða en samkvæmt heimildum Sky News eru einhverjar flaugar þegar komnar til Úkraínu.
CNN sagði fyrst frá sendingunum í gærkvöldi en þær hafa ekki verið staðfestar fyrr en nú.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í viðtali við BBC sem birt var í morgun að Úkraínumenn myndu ekki hefja gagnsókn gegn Rússum strax, því þeir þyrftu að bíða eftir frekari hergagnasendingum frá bakhjörlum sínum.
Fjölmiðlar í Bretlandi hafa eftir Wallace að það hafi tekið nokkurn tíma að finna leiðir til þess að Úkraínumenn gætu notað herþotur sínar frá tímum Sovétríkjanna til að skjóta stýriflaugunum.
„Það er ekki auðvelt að taka bresk-franskar eldflaugar og aðlaga þær að sovéskum eða rússneskum herþotum,“ sagði Wallace. Hann sagði að það væri meðal þeirra ástæðna að ekki væri búið að senda þessar stýriflaugar til Úkraínu fyrr.
Wallace sagðist ekkert vilja segja um hvenær búist væri við því að Úkraínumenn myndu nota stýriflaugarnar.
WATCH: UK Defence Secretary Ben Wallace confirms delivery of Storm Shadow to Ukraine. pic.twitter.com/fx70hsqChS
— Artoir (@ItsArtoir) May 11, 2023
Geta gert árásir á Kerch-brú
Eins og áður segir gera þessar stýriflaugar Úkraínumönnum kleift að gera árásir á birgðastöðvar og vopnageymslur Rússa fjær frá víglínunum en áður. Þeir geta sömuleiðis gert fleiri árásir á brúnna yfir Kerch-sund, sem tengir Krímskaga, sem Rússar innlimuðu ólöglega árið 2014, við meginland Rússlands og flugvelli sem Rússar nota á Krímskaga, svo eitthvað sé nefnt.
Þegar Úkraínumenn fengu fyrst HIMARS eldflaugar notuðu þeir þær með miklum árangri gegn birgðastöðvum og vopnageymslum Rússa. Þessir staðir hafa nú verið færðir fjær víglínunum í austurhluta Úkraínu og á Krímskaga.
Með Storm Shadow stýriflaugum gera Úkraínumenn aftur farið að gera sambærilegar árásir en það fer eftir því hve margar stýriflaugar þeir hafa fengið og munu fá.