Handbolti

Færri komast að en vilja á stór­leik kvöldsins: „Þetta er lykil­­leikur“

Aron Guðmundsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, á hliðarlínunni.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, á hliðarlínunni. Vísir/Hulda Margrét

Það er von á hörku­leik í kvöld þegar að Aftur­elding tekur á móti Haukum í þriðja leik undan­úr­slita­ein­vígis liðanna í Olís deild karla. Staðan er jöfn í ein­víginu fyrir leik kvöldsins og ljóst að færri munu komast að en vilja í Í­þrótta­mið­stöðinni að Varm­á.

Fyrstu tveir leikirnir í rimmu þessara liða hafa boðið upp á mikla spennu og skemmtun. Gunnar Magnús­son, þjálfari Aftur­eldingar, segir að það sama verði upp á teningnum í þriðja leik liðanna í kvöld.

„Ég á von á því að þetta verði svipaður leikur og við höfum verið að sjá í fyrstu tveimur leikjunum,“ segir Gunnar í sam­tali við Guð­jón Guð­munds­son í­þrótta­frétta­mann. „Þetta eru hörkuleikir sem hafa boðið upp á mikla sveiflu, það verður ekkert annað upp á teningnum í kvöld.“

Einvígi sem býður upp á allt

Annar leikur liðanna, sem fór fram á Ás­völlum, bauð upp á mikla dramatík undir lokin er Haukar tryggðu sér sigur í þeim leik með flautu­marki. 

Lið Aftur­eldingar fannst hins vegar á sér brotið í að­draganda marksins og má sjá á mynd­bands­upp­tökum frá leiknum að dómarar hans gerðu klár mis­tök.

Gunnar hefur sagt að svona hlutir, dómaramistök, séu hluti af leiknum og vill hann ekki velta sér of mikið upp úr því sem átti sér stað í öðrum leik liðanna.

„Þessi úr­slita­keppni hefur boðið upp á allt sem hægt er að bjóða upp á og verið mikil skemmtun. Auð­vitað vilja allir að þetta ráðist ekki á ein­hverjum dómaramis­tökum en það er bara á­fram gakk. Næsti leikur tekur bara við og vonandi læra menn af þessu og við höldum bara á­fram.“

Fókusinn inn á við

En hver verður nálgun Aftur­eldingar á leik kvöldsins?

„Það sem við reynum fyrst og fremst að gera er að horfa inn á við. Horfum á þá hluti sem við gætum bætt í okkar leik á milli leikja. Að mínu mati er enn þá tölu­vert sem við getum bætt á skömmum tíma og á það höfum við ein­blínt þessa daga milli leikja. 

Að finna hluti sem við getum bætt og við ætlum að reyna ná fram betri frammi­stöðu í kvöld heldur en hefur verið raunin í síðustu leikjum.“

Það hefur ekki verið gefin tomma eftir í leikjum Aftureldingar og Hauka til þessaVísir/Hulda Margrét

Stöðug­leiki ein­kennir standið á leik­manna­hópi Aftur­eldingar þessa dagana, eitt­hvað sem hjálpar þjálfara liðsins þessa strembnu daga sem úr­slita­keppnin býður upp á.

„Það er bara ó­breytt staða hjá okkur,“ segir Gunnar að­spurður um standið á leik­manna­hópi Aftur­eldingar. „Við náum að tefla fram sama liði og í síðustu leikjum. Þetta er lykil­leikur í kvöld, staðan er 1-1 í ein­víginu og alveg ljóst að það lið sem vinnur í kvöld kemur sér í kjör­stöðu.“

Árshátíð handboltans

Búast má við mikilli stemningu á pöllunum í Í­þrótta­mið­stöðinni að Varm­á í kvöld.

„Ég á von á troð­fullu húsi, það munu færri komast að en vilja. Hér hefur verið skipu­lögð mikil upp­hitun meðal stuðnings­manna liðsins fyrir leik, al­gjör há­tíð og það verður upp­selt í kvöld.“

Stuðningsmenn beggja liða munu fjölmenn á leik kvöldsins. Hér má sjá stuðningsmenn Aftureldingar fyrr í einvíginuVísir/Hulda Margrét

Um eins konar árs­há­tíð hand­boltans sé að ræða þegar komið er að þessum loka ein­vígjum úr­slita­keppninnar.

„Þetta er mikil veisla og gaman að taka þátt í þessu, einnig fyrir þá sem standa nærri liðunum. Ég veit að núna eru menn að setja upp palla í í­þrótta­húsinu til þess að fleiri geti sótt leikinn.

Þriðji leikur Aftur­eldingar og Hauka í undan­úr­slitum Olís deildar karla verður í beinni út­sendingu á Stöð 2 Sport í kvöld. Bein út­sending frá Mos­fells­bæ hefst klukkan 19:00. Eftir leik tekur síðan Seinni bylgjan við og kryfur hann til mergjar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×