Körfubolti

„Drungilas er gríðarlega heppinn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adomas Drungilas skoraði níu stig og tók átta fráköst í leiknum gegn Val á laugardaginn.
Adomas Drungilas skoraði níu stig og tók átta fráköst í leiknum gegn Val á laugardaginn. vísir/bára

Teitur Örlygsson, sérfræðingur Subway Körfuboltakvölds, segir að Adomas Drungilas, leikmaður Tindastóls, geti prísað sig sælan að sleppa við leikbann fyrir að slá Kristófer Acox, leikmann Vals, í fyrsta leik liðanna í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

Dómarar leiksins skoðuðu atvikið á myndbandi og gáfu svo Drungilas óíþróttamannslega villu. Dómaranefnd KKÍ vísaði atvikinu til aga- og úrskurðarnefndar sem ákvað að aðhafast ekkert í málinu. Drungilas slapp því við bann og spilar annan leikinn gegn Val í kvöld.

Guðjón Guðmundsson ræddi við Teit um leikinn á Sauðárkróki í kvöld og stöðu Drungilas.

„Ég veit ekki hvort þetta efli Valsmenn, það gæti vel farið svo. Drungilas hlýtur að líða svolítið skringilega, að skauta svona í gegnum þetta. Hann er ansi heppinn. Ég held að allir séu sammála um það,“ sagði Teitur.

„Maður sér það líka í dómsorðinu að 23 af 24 FIBA-dómurum séu sammála íslensku dómurunum, að þetta hafi átt að vera brottrekstur. Dómarar leiksins gerðu greinilega einhver mistök en Drungilas er gríðarlega heppinn. Það munaði svo litlu að hann hefði ekki spilað seinni hálfleikinn í fyrsta leik og í leikbanni í næstu tveimur. En hann nær að spila 27-28 mínútur í fyrsta leik og verður bara með eins og ekkert hafi í skorist. Þeir eru gríðarlega heppnir.“

Farið var vandlega yfir atvikið í Subway Körfuboltakvöldi eftir leikinn á laugardaginn eins og sjá má í spilaranum hér fyrir neðan.

Tindastóll vann leikinn með eins stigs mun, 82-83, og tók þar með forystuna í einvígi liðanna. Þessi lið mættust einnig í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra þar sem Valur hafði betur, 3-2.

Leikur Tindastóls og Vals hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun Subway Körfuboltakvölds hefst klukkan 18:30.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×