Körfubolti

Drungilas slapp við bann og spilar í Síkinu í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Adomas Drungilas verður með í Síkinu í kvöld.
Adomas Drungilas verður með í Síkinu í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Nú er orðið ljóst að Adomas Drungilas verður ekki dæmdur í leikbann fyrir brot sitt á Kristófer Acox í fyrsta leik úrslitaeinvígis Tindastóls og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta.

Drungilas fékk óíþróttamannslega villu snemma í seinni hálfleik á laugardaginn, eftir að olnbogi hans fór í höfuð Kristófers. Sá síðarnefndi þurfti að fara inn í búningsklefa ásamt sjúkraþjálfara og kom síðan til baka vafinn um höfuðið.

Dómarar leiksins skoðuðu atvikið á myndbandi áður en þeir veittu Drungilas óíþróttamannslega villu. Engu að síður ákvað dómaranefnd KKÍ að vísa atvikinu til aga- og úrskurðarnefndar sem nú hefur vísað málinu frá. Atvikið var skoðað vandlega í Subway Körfuboltakvöldi eftir leik og má sjá það hér að neðan.

Annar leikur einvígisins verður spilaður í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld og hefst hann klukkan 19.15.

Fjöldi sérfræðinga ósammála dómnum á laugardag

Í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar segir að þar sem að dómarar leiksins hafi sannarlega séð atvikið, og skoðað það nánar í endursýningu á keppnisstað, sé nefndin bundin af ákvörðun dómara leiksins. Því var kærunni vísað frá.

Í úskurðinum segir að dómaranefnd KKÍ hafi leitað álits sérfræðinga til að meta alvarleika atviksins, og að flestir þeirra hafi verið erlendir FIBA-vottaðir dómaraleiðbeinendur. 

Af 23 sérfræðingum sem mátu atvikið var aðeins einn sem mat það með sama hætti og dómararnir á laugardag, það er að segja þannig að dæma ætti óíþróttamannslega villu. Átján mátu það þannig að um brottrekstrarvillu væri að ræða og fjórir að um óíþróttamannslega eða brottrekstrarvillu væri að ræða, það er að segja að til að uppfæra í brottrekstrarvillu þyrfti að skoða annað samhengi en brottrekstrarvilla væri vel réttlætanleg.

Einn meðlimur dómaranefndar ekki með tengsl við Val

Ljóst er að ákvörðun dómaranefndar um að vísa málinu til aga- og úrskurðarnefndar fór illa í margan Skagfirðinginn. Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, sá að minnsta kosti ástæðu til þess að hvetja fólk til stillingar, og að beina orku sinni í jákvæðan farveg.

Í greinargerð körfuknattleiksdeildar Tindastóls um málið segir að dómaranefnd hafi í raun verið óstarfhæf í ljósi þess að tveir af þremur meðlimum hennar hafi sagt sig frá málinu vegna tengsla við Val, en það voru þeir Jón Bender formaður og Rögnvaldur Hreiðarsson. Eftir stóð Aðalsteinn Hrafnkelsson. 

Aganefnd hafnar því á þeirri forsendu að hún sé ekki æðri en dómaranefnd og hafi því ekki úrskurðarvald um hvenær og hvort dómaranefnd KKÍ sé ályktunarbær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×