Innlent

Hæsti­réttur sam­þykkir að taka fyrir launa­á­kvörðun ríkis­lög­reglu­stjóra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, lét af embætti í mars 2020.
Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, lét af embætti í mars 2020. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur samþykkt að taka fyrir mál embættis ríkislögreglustjóra og íslenska ríkisins gegn fjórum lögreglumönnum. Málið varðar samkomulag sem þáverandi ríkislögreglustjóri gerði við lögreglumennina árið 2019 en nýr ríkislögreglustjóri hefur freistað þess að fá hnekkt.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar síðastliðinn, þess efnis að greiða ætti lögreglumönnunum samkvæmt samkomulaginu frá 2019. 

Málið komst fyrst í hámæli tveimur árum áður, þegar fram kom í svörum ráðherra við fyrirspurn þingmanns að föst mánaðarlaun tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna hefðu hækkað um 48 prósent að meðaltali með umræddu samkomulagi.

Þá fól samkomulagið í sér aukin lífeyrisréttindi.

Það var Haraldur Johannessen sem var ríkislögreglustjóri árið 2019 en þegar Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við í mars 2020 fékk hún lögfræðiálit í hendur þess efnis að Haraldur hefði ekki haft heimild til að semja við lögreglumennina um umræddar kjarabætur.

Þegar Sigríður freistaði þess að vinda ofan af samkomulaginu höfðuðu fjórmenningarnir; Árni Elías Albertsson, Ásgeir Karlsson, Óskar Bjartmarz og Guðmundur Ómar Þráinsson, mál gegn ríkislögreglustjóraembættinu.

Í ákvörðun hæstaréttar að taka málið fyrir segir að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi, meðal annars um svigrúm forstöðumanna ríkisstofnana til að breyta launakjörum embættismanna. Beiðni um áfrýjunarleyfi sé því samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×