Veður

Víða rigning og hiti að fjór­tán stigum

Atli Ísleifsson skrifar
Reikna má með að hiti verði víða á bilinu sjö til fjórtán stig.
Reikna má með að hiti verði víða á bilinu sjö til fjórtán stig. Vísir/Vilhelm

Nú er víðáttumikil lægð djúpt suðvestur af landinu og líkt og undanfarna daga þá beinir hún til okkar mildu og röku lofti. Reikna má með austan- og suðaustanátt í dag, golu, kalda eða stinningskalda og súld eða rigningu með köflum.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að á norðanverðu landinu verði þó yfirleitt þurrt fram eftir degi, en seinnipartinn megi búast við dálítilli vætu norðaustanlands.

Þá megi reikna með hita víða á bilinu sjö til fjórtán stig.

„Á morgun er útlit fyrir hægan vind á landinu og súld eða dálitla rigningu með köflum, en það verður úrkomulítið á Austurlandi. Hiti 4 til 12 stig, svalast á Norðurlandi.“

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Breytileg átt 3-8 m/s og súld eða dálítil rigning með köflum, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti 5 til 12 stig.

Á miðvikudag: Fremur hæg breytileg átt. Skýjað að mestu á landinu og líkur á stöku skúrum. Hiti frá 4 stigum við norðurströndina, upp í 14 stig á Suðausturlandi.

Á fimmtudag: Hægt vaxandi suðaustanátt, 8-15 m/s og fer að rigna sunnan- og vestanlands síðdegis. Hægari vindur og bjartviðri um landið norðaustanvert. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast norðanlands.

Á föstudag: Suðvestan- og sunnanátt og víða skúrir, en rigning suðaustanlands fram eftir degi. Hiti 6 til 14 stig.

Á laugardag og sunnudag: Breytileg átt og rigning eða slydda með köflum, einkum norðanlands. Kólnandi veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×