Handbolti

Hanna eftir lokaleikinn á einstökum ferli: „Ég geng sátt frá borði“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hanna Guðrún Stefánsdóttir eftir síðasta leikinn á einstökum ferli sem spannaði næstum því þrjátíu ár.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir eftir síðasta leikinn á einstökum ferli sem spannaði næstum því þrjátíu ár. vísir/hulda margrét

Hanna Guðrún Stefánsdóttir lék í dag sinn síðasta leik á löngum og glæsilegum ferli sem hófst um miðjan 10. áratug síðustu aldar. Stjarnan tapaði þá fyrir Val, 20-27, í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildarinnar.

„Eins og staðan er núna er tilfinningin mjög súr. Maður hefði viljað enda betur, að leikurinn hefði verið meira spennandi en ég geng sátt frá borði,“ sagði Hanna við Vísi eftir leikinn.

„Ég er stolt af öllu sem ég hef gert og verið ótrúlega heppinn, verið í landsliðinu og það var mikill heiður og upplifa öll stórmótin með því. Ég held að ég sé alveg búin að skila mínu í boltanum.“

En hvað stendur upp úr á þessum næstum því þrjátíu ára ferli í meistaraflokki?

„Stórmótin og ýmsir titlar sem ég hef unnið. Ég hef unnið alla titla á Íslandi en sumir eru sætari en aðrir,“ sagði hin 44 ára Hanna sem hefur alla tíð hugsað vel um sig sem skýrir af hverju ferilinn var jafn langur og raun bar vitni.

„Þetta eru fórnir og það þarf að hugsa vel um sig og æfa vel, vera mjög skipulagður og eiga góða fjölskyldu og góðan maka. Þegar maður eldist lærir maður alltaf eitthvað nýtt og þarf að hugsa öðruvísi um sig. Maður getur ekki farið bara áfram á hornunum heldur þarf að hægja á sér en samt æfa vel. Það er galdurinn,“ sagði Hanna sem ætlar að taka sér langþráð frí núna en útilokar ekki að tengjast handboltanum í framtíðinni.

„Ég er rosa spennt fyrir því að taka eitt ár og gera bara ekki neitt, prufa það. Ég fór á fyrstu handboltaæfingu um tíu ára aldurinn. Ég er rosalega spennt að gera ekki neitt en þjálfun kemur alveg til greina,“ sagði Hanna að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×