Handbolti

Ræddu ill­við­ráðan­legt vanda­mál Garð­bæinga: „Ég bara skil þetta ekki“

Aron Guðmundsson skrifar
Úr leik Vals og Stjörnunnar í undanúrslitum Olís deildar kvenna
Úr leik Vals og Stjörnunnar í undanúrslitum Olís deildar kvenna

Það hefur verið við­loðandi leik kvenna­liðs Stjörnunnar í hand­bolta nú í langan tíma að liðið byrjar leiki sína afar illa. Það hefur gengið erfið­lega fyrir þjálfara­t­eymi liðsins að finna lausnir á þessu vanda­máli sem var til um­ræðu í nýjasta þætti Kvenna­kastsins.

Stjarnan háir nú ein­vígi við Vals­konur í undan­úr­slitum Olís-deildar kvenna en slök byrjun hefur oft á tíðum valdið Stjörnu­konum vand­ræðum á yfir­standandi tíma­bili. Staðan í ein­víginu er 2-1 fyrir Val þegar fjórði leikur liðanna nálgast.

„Ég bara skil þetta ekki,“ sagði Inga Fríða, Stjörnu­kona og einn af sér­fræðingum Kvenna­kastsins um þetta vanda­mál sem Stjarnan glímir við. „Ef ég vissi hvað ætti sér stað hjá þeim þá væri ég búin að koma lausninni á fram­færi. Þetta er mjög undar­legt og eru auð­vitað alveg ó­geðs­lega erfitt fyrir liðið, að þurfa ein­hvern veginn alltaf að byrja á að sækja.“

Sigur­laug Rúnars­dóttir, um­sjónar­maður Kvenna­kastsins tók undir með Ingu Fríðu

„Þær þurfa alltaf að byrja á því mjög snemma í leikjum sínum að taka leik­hlé eftir slaka byrjun því það virðist ekki vera búið að ræsa vélarnar í liðinu og það er örugg­lega búið að prófa allt til þess að koma í veg fyrir það að svona gerist aftur og aftur.

Að sama skapi, ef það ætti að velja ein­hvern tíma­punkt í leiknum til þess að eiga slæman kafla þá er á­byggi­lega skásti kaflinn í byrjun leiks því þá hefurðu alla­vegana tíma til þess að vinna þetta upp.“

Um­ræðuna um Stjörnu­konur og Kvenna­kastið í heild sinni má hlusta á hér fyrir neðan. Þá er fjórði leikur Stjörnunnar og Vals í undanúrslitum Olís deildarinnar í beinni útsendingu klukkan 16:30 á Stöð 2 Sport 5 í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×