Menning

Naktir nemendur sýna Grease

Apríl Auður Helgudóttir skrifar
Elínborg Una Einarsdóttir er á öðru ári á sviðslistabraut.
Elínborg Una Einarsdóttir er á öðru ári á sviðslistabraut. Aðsend

Eitt af einstaklingsverkefnum Listaháskólans er uppsetning á söngleiknum Grease. Þrjár sýningar verða sýndar á einum degi, næstkomandi laugardag. Söngleikurinn verður þó í aðeins öðru formi en áður þar sem allir leikarar verða naktir, alla sýninguna. Miðar á sýningar seldust upp á mettíma. Hópurinn sem kemur að verkinu er orðinn náinn og vel búinn undir frumsýningu. Farsímar verða bannaðir í salnum. 

Elínborg Una Einarsdóttir er á öðru ári á sviðslistabraut í Listaháskólanum. Einstaklingsverkefnið hennar er uppsetning á söngleiknum Greaseeða Koppafeiti eins og söngleikurinn hefur verið kallaður á íslensku.

Hópurinn sem kemur að verkefni Elínborgar eru nemendur í Listaháskólanum en það þurfti engan búningahönnuð fyrir þessa sýningu.

Nektin hafi áhrif á áhorfendur og leikara

Í náminu hefur Elínborg verið að skoða nekt og hvaða áhrif hún hefur á áhorfendur jafnt sem leikara.

„Mér finnst áhugavert að kanna hvernig nektin birtist á sviði og hvaða áhrif hún hefur á verkið. Ég vildi skoða hvaða áhrif hún hefur. Þetta verkefni er ákveðin tilraun og rannsókn líka,“ segir Elínborg Una.

„Í rauninni kemur hugmyndin, að setja upp Grease í Listaháskólanum, á undan hugmyndinni um að vera nakin,“ segir hún.

„Mér fannst skemmtileg pæling að setja upp þennan söngleik, sem er orðinn hálfrar aldar gamall og er klassískur söngleikur sem allir þekkja. Ég ákvað að prófa að setja hann upp sem ákveðinn gjörning.“

Að lokinni sýningu ætlar Elínborg Una að ræða við áhorfendur og heyra hver þeirra upplifun á verkinu sé. Hún segir þó að leikararnir og þeir sem koma að sýningunni finni líka hvaða áhrif nektin hefur.

„Áhorfendur taka öðruvísi í verkið þegar leikarar eru naktir. Ég hef unnið með nekt á sviði áður. Nekt í þessu formi þar sem þetta er ekki kynferðislegt heldur er hún þarna bara af því bara,“ segir hún.

„En mín upplifun hefur verið að áhorfendur halda meira með persónunum og fara meira inn í verkið.“

Mikil eftirspurn

Miðar á allar sýningar seldust upp á skömmum tíma.

Grease er þroskasaga óöruggra unglinga sem verða yfir sig ástfangnir og umbylta í kjölfarið sjálfsmynd sinni í von um hamingju og samþykki. Danny Zuko og Sandy Olson ásamt samnemendum sínum í Rydell-menntaskólanum eru söguhetjur.Plaggat verksins

„Ég hef séð það á eftirspurninni að fólk er spennt fyrir þessari hugmynd. Fyrst ætlaði ég bara að vera með tvær sýningar en þetta var svo vinsælt. Við bættum við einni miðnætursýningu, sem er ekki beint hefðbundinn tími til að mæta í leikhús en það seldist upp á hana á hálftíma,“segir Elínborg Una.

„Fólk er mjög spennt að sjá þetta greinilega. Hvort það sé út af nektinni eða hvort fólk sé spennt fyrir grís, veit ég ekki en það er kannski bara bæði,“ segir hún.

Undirbúin undir nektina

Ferlið hafi gengið vel fyrir sig. Mestur tími hafi farið í að fullkomna sönginn og frásögnina. Hópurinn hafði sex vikur til undirbúningur á sýningunni og æfingar fara fram á kvöldin og um helgar. Þrátt fyrir að mikill tími hafi farið í að æfa hefur Elínborg einnig nýtt tímann í að undirbúa leikara undir þá tilhugsun að vera nakinn á sviðinu.

Góð stemming sé innan hópsins og hefur gengið vel að undirbúa fólk fyrir búningaskort. 

„Þetta hefur ekki verið mikið mál og við pössum að öllum líði vel. Mikilvægast er að allir upplifi sig örugga,“ segir Elínborg Una.

„Við höfum átt mikið af samtölum um nektina til að undirbúa okkur. Við fórum líka saman í sánu. Ég vildi byrja þetta á aðstæðum þar sem er eðlilegt að vera nakinn.“ 

Hún hefur haft það að stefnu í öllu ferlinu að leikarar mega stíga út úr aðstæðum ef þeim líður illa.

„Ef einhver treystir sér ekki til að vera í sviðsljósinu á einhverjum tímapunkti þá má bara fara út af sviðinu og við finnum út úr því,“ segir hún.

„Mér finnst númer eitt, tvö og þrjú að öllum líði vel og virði mörkin sín.“

Elínborg Una segir að nektin sé stundum hluti af sýningunni og leikarar nýti sér þau tól sem því fylgir. 

„En ég vil ekki „spoila“ of miklu og segi kannski ekki meira um hvernig við erum að nota nektina.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×