Erlent

Auð­jöf­ur greidd­i skól­a­gjöld fyr­ir hæst­a­rétt­ar­dóm­ar­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Clarence Thomas, hæstaréttardómari, hefur verið mikið milli tannanna á fólki að undanförnu vegna sambands hans við íhaldssaman auðjöfur.
Clarence Thomas, hæstaréttardómari, hefur verið mikið milli tannanna á fólki að undanförnu vegna sambands hans við íhaldssaman auðjöfur. AP/J. Scott Applewhite

Bandarískur auðjöfur sem er umfangsmikill bakhjarl Repúblikanaflokksins, greiddi skólagjöld fyrir barn sem hæstaréttardómari ól upp. Clarence Thomas, dómarinn, greindi ekki frá þessum greiðslum í hagsmunaskráningu sína en sami auðjöfur hefur verið mjög gjafmildur í garð Thomas um árabil.

Umræddur auðjöfur heitir Harlan Crow en stutt er síðan að fjölmiðlar vestanhafs sögðu frá því að hann hefði um árabil boðið Thomas í lúxusferðir og keypt af honum fasteignir. Þar á meðal húsnæði móður Thomas sem auðjöfurinn gerði upp og leyfði móðurinni að búa þar áfram.

Þessu hefur rannsóknarmiðilinn ProPublica sagt frá á undanförnum vikum.

Sjá einnig: Dómari breytir hagsmunaskráningu í kjölfar uppljóstrana

ProPublica sagði frá því í dag að Crow hefði greitt skólagjöld í tveimur skólum fyrir Mark Martin, frænda Thomas sem hann ól upp en þar er um að ræða meira en sex þúsund dali á mánuði. ProPublica sagði að ef Crow hefði greitt fyrir fjögurra ára skólagöngu drengsins hefði upphæðin farið yfir 150 þúsund dali.

AP fréttaveitan vitnar í lögmanninn Mark Paoletta, sem er vinur Thomas til margra ára, en hann segir að Crow hafi á sínum tíma lagt til að Martin færi í Randolph-Macon Acadamey heimavistarskóla árið 2006 og bauðst hann til að borga fyrir fyrsta árið hans þar, sem hann gerði. Forsvarsmenn skólans lögðu svo í kjölfarið til, samkvæmt Paoletta, að Martin færi í annan heimavistarskóla árið eftir og greiddi Crow einnig skólagjöld hans þar.

Paoletta segir að greiðslurnar hafi farið beint til skólanna og heldur því fram að verið sé að reyna að búa til skandala í tengslum við Thomas. Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa tekið undir það í dag og saka Demókrata um að grafa undan Thomas og Hæstarétti Bandaríkjanna.

Thomas var skipaður í embætti af George H. W. Bush árið 1990.

Þingmenn Demókrataflokksins hafa tekið aðra afstöðu í dag en þeirra á meðal er Ron Wyden, öldungadeildarþingmaður frá Oregon. Hann sagði að uppljóstranir um samband Crow og Thomas og það að auðjöfurinn hafi haldið uppi lífsstíl fyrir Thomas sem hann hefði annars ekki haft efni á, vera gróft brot á siðferðisgildum, sem væru ekki nægilega öflug fyrir þegar kæmi að Hæstarétti Bandaríkjanna.

Demókratar hafa notað uppljóstranir um Thomas og það að Neil Gorsuch, sem skipaður var í embætti af Donald Trump, seldi fasteign til forstjóra lögmannsstofu sem fer með mál fyrir Hæstarétti, rétt eftir að hann varð hæstaréttardómari og sagði ekki frá því hver hefði keypt eignina af honum, til að kalla eftir hertum siðferðisreglum um Hæstarétt Bandaríkjanna en því hafa Repúblikanar mótmælt.

Sjá einnig: Dómari greindi ekki frá fasteignasölu til forstjóra lögmannsstofu

John Roberts, forseti Hæstaréttar, neitaði nýverið að koma fyrir dómsmálanefnd öldungadeildarinnar, þar sem Demókratar eru í meirihluta, og ræða umbætur í siðamálum réttarins. Vísaði hann til þrískiptingar valds í Bandaríkjunum.

Dick Durbin, formaður nefndarinnar, er meðal þeirra sem hefur tjáð sig um nýjustu fregnir af Thomas. Hann segist vonast til þess að Roberts hafi lesið fréttirnar og skilji að aðgerðir séu nauðsynlegar. Trúverðugleiki Hæstaréttar Bandaríkjanna sé í húfi.


Tengdar fréttir

Óttast viðbrögð kjósenda við aðgerðum gegn rétti til þungunarrofs

Repúblikanar hafa áhyggjur af því að afstaða flokksins til hertra reglna um þungunarrof og aðgerðir í þá átt, muni koma niður á flokknum í kosningum næsta árs. Þeir óttast að stefna flokksins í þessum málum höfði mjög til þeirra flokksmeðlima sem ákveða úrslit forvala í flokknum, en sé óvinsæl meðal almennra kjósenda.

Dómari aftur­kallar leyfi FDA fyrir þungunar­rofslyfi

Dómari í Texas í Bandaríkjunum hefur ógilt samþykki Matvæla- og lyfjastofnunar (FDA) Bandaríkjanna um markaðsleyfi fyrir þungunarrofslyfið mifepristone. Um er að ræða fyrsta skiptið sem dómstóll hlutast til um leyfisveitingu stofnunarinnar.

Gætu breytt band­a­rísk­u sam­fé­lag­i næst­u ár­a­tug­in­a

Hæstiréttur Bandaríkjanna kemur saman á morgun í fyrsta sinn frá því í júní en dómararnir munu taka fyrir mörg stór og umdeild mál á næstu mánuðum. Búast má við því að dómarar sem skipaðir voru af forsetum úr Repúblikanaflokknum, sem eru í miklum meirihluta (6-3), muni halda áfram að færa bandarískt samfélag til hægri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×