David Cattler, yfirmaður leyniþjónustumála hjá Atlantshafsbandalaginu, sagði frá þessu í dag og sagði áhyggjur af mögulegum skemmdarverkum Rússa hafa aukist.
Ríkisfjölmiðlar Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands hafa verið að birta þætti í heimildaþáttaröð um njósnir Rússa og var þar meðal annars greint frá því að þeir starfræktu dulbúinn flota af njósnafleyjum í Norðursjó.
Sjá einnig: Hættan ekki ný af nálinni en almenning þyrstir í upplýsingar
Cattler sagði í dag að Rússar hefðu ekki verið svo virkir í Atlantshafinu, Norðursjó og Eystrasalti um árabil og vísaði hann meðal annars til þessara njósnaskipa. Hann sagði þó að fylgst væri með þeim.
Cattler varaði við því að andstæðingar NATO hefðu áttað sig á því að þeir gætu ógnað hagsmunum aðildarríkja bandalagsins með því að vinna skemmdir á innviðum sem snúa að orku og internetinu. Fjármálakerfi Vesturlanda væri til dæmis mjög háð netinu en sæstrengir eru þar gífurlega mikilvægir.
Forsvarsmenn NATO hafa aukið eftirlit í Norðursjó og á Eystrasalti eftir að Nord Stream gasleiðslurnar voru skemmdar með sprengingum í fyrra, samkvæmt frétt Reuters.
NATO stofnaði nýverið sérstaka deild þar sem unnið verður með sérfræðingum, fyrirtækjum og ríkisstjórnum aðildarríkja að því að vernda neðansjávarinnviði. Hans-Werner Wiermann, þýskur herforingi sem leiðir þessa deild, tók undir það með Cattler í dag að hættan væri raunveruleg.
Þeir sögðu hana einnig geta beinst að vindorkuverum á Norðurhafi en hægt væri að draga úr hættunni með því að tengja slík orkuver til lands með fleiri en einum kapli.