Tugir leiðtoga Evrópuríkja eru væntanlegir á fundinn í Hörpu sem fer fram dagana 16.-17. maí. Mikil öryggisgæsla verður vegna fundarins og verður götum í stórum hluta miðborgarinnar lokað fyrir bílaumferð á meðan.
Yfirvöld huga einnig að stafrænum árásum í kringum fundinn. Í tilkynningu CERT-IS, netöryggissveitar íslenskra stjórnvalda, segir að það sé samdóma álit sérfræðinga hennar að gera megi ráð fyrir því að„ógnahópar og mótmælendur“ nýti viðburðinn til að vekja á sér athygli með netárásum á íslenskt netumhverfi.
Markmið slíkra árásanna gæti annars vegar verið að trufla framvindu fundarins, til dæmis með því að ráðast á útsendingu frá honum. Hins vegar gætu árásarhópar ráðist á íslensk fyrirtæki og stofnanir sem eru alls ótengd fundinum með það fyrir augum að valda almennum truflunum og óþægindum.
„CERT-IS telur að það sé full ástæða fyrir fyrirtæki og stofnanir að gera ráðstafanir fyrir sína stafrænu innviði í aðdraganda fundarins,“ segir í tilkynningunni.
Leggur sveitin til ýmsar ráðstafanir sem rekstarstjórar net- og upplýsingakerfa ættu að athuga fyrir fundinn. Á meðal þeirra er að tryggja mönnun á meðan á fundi stendur, hafa tveggja þátta auðkenningu á mikilvægum kerfum, yfirfara eldveggi og auka vitund starfsfólks um vefveiðapósta.