Handbolti

Fyrirliðinn framlengir við Fram

Jón Már Ferro skrifar
Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram.
Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram. vísir/bára

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram, hefur framlengt samning sinn til ársins 2025.

Steinunn er 32 ára, uppalin Framari og hefur undanfarin ár verið fastamaður í íslenska landsliðinu og lykilmaður Framara. Þjálfari liðsins, Einar Jónsson, telur Steinunni mikilvægan hlekk í þróun liðsins á næstu árum.

„Það eru núna kynslóðaskipti í kvennaliði Fram. Það var því mikilvægt fyrir okkur að breyta hópnum en að sama skapi sérstaklega mikilvægt líka að halda í þá leikmenn sem við viljum móta nýtt lið eftir. Þar eru leikmenn eins og Steinunn fremstir í flokki, því hún hefur öll þau gildi, kraft og hæfileika sem við viljum að yngri leikmenn stefni að og tileinki sér. Það er því einstakt ánægjuefni að Steinunn skuli nú hafa skuldbundið sig til að fara í þessa vegferð með félaginu sínu,“ segir Einar.

Á ferli sínum með Fram hefur Steinunn unnið fjóra íslandsmeistaratitla og fjóra bikarmeistaratitla.

„Fram er mitt félag og við stöndum á spennandi tímamótum núna. Liðið okkar hefur tekið miklum breytingum og við erum að opna liðið fyrir ungum og efnilegum leikmönnum. Það verður mjög gaman fyrir eldri og reynslumeiri leikmenn eins og mig, að fá inn ferskar ungar stelpur sem munu svo taka við keflinu þegar fram líða stundir. Þetta eru svakalega spennandi tímar og ég hlakka mikið til framhaldsins.“ segir Steinunn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×