AP fréttastofan hefur eftir talsmanni bandaríska þjóðaröryggisráðsins John Kirby að ný gögn bandarísku leyniþjónustunnar staðfesti tölur yfir mannfall Rússa. Sjálf hafa rússnesk yfirvöld ekkert gefið upp en Kirby greinir ekki frá því hvernig bandaríska leyniþjónustan komst að þessu.
Flestir hermannanna hafa fallið í hörðum bardögum í austurhluta Úkraínu við bæinn Bakhmut. Bæði Rússar og Úkraínumenn virðast leggja allt sitt í bardaga um bæinn og hafa hörðustu bardagar stríðsins farið þar fram undanfarna mánuði.
Helmingur þeirra Rússa sem fallið hafa í bardögum í Úkraínu hafa verið málaliðar á vegum Wagner Group að sögn Kirby. Eru margir þar á meðal fangar sem sleppt var úr fangelsi og gert að berjast fyrir hönd rússneskra stjórnvalda.
Segir Kirby að hermenn á vegum Wagner Group sé „hent í bardaga án nægrar þjálfunar, leiðsagnar eða skipulags.“ Hann líkir bardögum í Bakhmut við nokkra af hörðustu bardögum síðari heimsstyrjaldar.
„Þetta er þrefalt stærri tala látinna heldur en mannfall Bandaríkjanna í Guadalcanal orrustunni í síðari heimsstyrjöld og þessar tölur ná einungis til fimm mánaða,“ hefur AP fréttastofan eftir Kirby um þessar nýjustu tölur yfir mannfall Rússa.