Fyrr í vikunni ákvað bæjarstjórn að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogsbæjar og fara í samvinnu við Þjóðskjalasafn um að taka við safnkostinum. Sömuleiðis var samþykkt að fækka stöðugildum menningarhúsa bæjarins úr 33 í 29.
Að mati stjórnar Vinstri grænna í Kópavogi er þessi ákvörðun óvönduð og hefur flokkurinn lýst andstöðu við þessa ákvörðun. Flokkurinn er ekki með mann í bæjarstjórninni eftir að hafa fengið 5,1 prósent atkvæða í síðustu kosningum en tekur undir með minnihluta Viðreisnar, Pírata, Samfylkingarinnar og Vina Kópavogs.
„Erfitt er að meta allar þær ákvarðanir sem þarna voru teknar með samþykkt tólf tillagna bæjarstjóra á grundvelli greiningar fyrirtækisins KPMG. En ástæða er til að vísa til bókunar minnihlutans þar sem meðal annars segir: „Allar tillögur bæjarstjóra eru ótækar til ákvörðunar í bæjarstjórn vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum.“,“ segir í tilkynningu frá stjórn VG.
Segir í tilkynningunni að lítið samráð hafi verið haft við forstöðumenn menningarhúsanna í bæjarfélaginu. Þá séu svona stofnanir í sífelldri þróun og því sé það ekki eðlilegt að taka svo stórar ákvarðanir án samráðs.
„Góð skjalavarsla er gífurlega mikilvæg í daglegum rekstri bæjarfélagsins og forkastanlegt að leggja þessa mikilvægu stjórnsýsludeild bæjarins niður og fela starfsemi þess Þjóðskjalasafni Íslands, enda virðist enginn undirbúningur hafa verið unninn að því,“ segir í tilkynningunni.
Er þess krafist að endurskipulagning á starfsemi menningarhúsa bæjarins sé framkvæmd í samstarfi og sátt við starfsfólk.
„Stjórn VG í Kópavogi tekur undir með minnihluta bæjarstjórnar sem greiddi atkvæði gegn þessari ákvörðun og skorar á meirihlutann að endurskoða hana,“ segir í tilkynningunni.