Viðskipti innlent

Vísi­tala neyslu­verðs hækkar um 1,31 prósent

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Mjólkin hefur sín áhrif á verðbólguna í apríl.
Mjólkin hefur sín áhrif á verðbólguna í apríl.

Vísitala neysluverðs var 588,3 stig í apríl og hækkar um 1,31 prósent frá marsmánuði. Án húsnæðisliðar er vísitalan 487,1 stig og hækkar um 1,08 prósent milli mánaða.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 9,9 prósent en 8,7 prósent án húsnæðisliðar. Þokast verðbólgan því örlítið upp aftur eftir að hafa sigið í marsmánuði.

Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,5 prósent. Samkvæmt Hagstofunni skýrist hluti af þeirri hækkun á mjólk, ostum og eggjum. Það er 3,9 prósenta hækkun. Þá hækkaði reiknuð húsaleiga um 2,5 prósent, verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 1,9 prósent og flugfargjöld til útlanda um 19,5 prósent.

Nýr grunnur

Samkvæmt Hagstofunni er vísitala neysluverðs í apríl reiknuð á nýjum grunni, mars 2023, og byggist hann á niðurstöðum úr rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna árin 2019 til 2021. Neysluhlutföll eru skoðuð yfir þriggja ára tímabil til þess að draga fram langtímaþróun á sama tíma og dregið er úr skammtímasveiflum í niðurstöðunum.

Þá er einnig litið til annarra heimilda til að styrkja niðurstöðurnar, svo sem þjóðhagsreikninga.


Tengdar fréttir

Verð­bólgan þokast niður

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,59 prósent milli mánaða og fer verðbólgan á ársgrundvelli úr 10,2 prósent niður í 9,8 prósent. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×