Neil Gorsuch er sagður hafa leitað að kaupanda að sextán hektara landareign í Colorado sem hann átti ásamt tveimur öðrum í hátt í tvö ár frá 2015. Aðeins níu dögum eftir að öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti tilnefningu Donalds Trump á Gorsuch sem hæstaréttardómara fannst kaupandinn.
Kaupandinn var Brian Duffy, forstjóri Greenberg Traurig, einnar stærstu lögfræðistofu Bandaríkjanna sem rekur reglulega mál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna, að sögn bandaríska blaðsins Politico. Duffy greiddi alls 1,8 milljónir dollara, jafnvirði um 245 milljóna íslenskra króna, fyrir eignina.
Í hagsmunaskráningu fyrir alríkisembættismenn skráðu Gorsuch að hann hefði hagnast á bilinu 250.000 til 500.000 dollara á sölunni, jafnvirði á bilinu 34 til 68 milljónir króna. Hann fyllti hins vegar ekki út í reit um hver kaupandinn væri.
Síðan þá hefur Greenberg Traurig átt þátt í að minnsta kosti 22 málum sem komið hafa til kasta hæstaréttar. Í tólf málum sem Gorsuch skrifaði álit tók hann afstöðu með skjólstæðingum fyrirtækisins átta sinnum en fjórum sinnum gegn þeim.
Duffy ber því við að hann hafi aldrei persónulega rekið mál fyrir Gorsuch og að hann hafi aldrei rætt við dómarann. Þegar hann hafi komist að því að Gorsuch væri á meðal eiganda eignarinnar hafi hann fengi grænt ljós frá siðadeild lögmannsstofunnar. Gorsuch svaraði ekki fyrirspurn Politico.
Sýni hversu veikburða siðareglur réttarins séu
Stutt er síðan upplýst var að Clarence Thomas, íhaldssamasti dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna, hafi selt milljarðamæringi frá Texas landareign og hús móður sinnar án þess að skrá það í hagsmunaskráningu sína. Hann hefði einnig þegið nær árlega lúxusferðir frá auðkýfingnum sem er á meðal stærstu fjárhagslegu bakhjarla Repúblikanaflokksins. Dómarinn gerði heldur ekki grein fyrir þeim ferðum.
Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings óskaði eftir því að John Roberts, forseti hæstaréttar, og einn sex íhaldsmanna við réttinn komi fyrir nefndina til að ræða siðareglur dómstólsins. Dick Durbin, formaður nefndarinnar, upplýsti að Roberts hefði hafnað boðinu.
Politico segir að siðareglur hæstaréttar banni dómurum ekki að stunda viðskipti við fólk sem hefur hagsmuni að dómum þeirra. Mál Gorsuch sýni hversu veikar siðareglurnar séu. Viðskipti hans og hvernig hann skráði þau hefði komið embættismönnum sem starfa fyrir aðrar greinar ríkisvaldsins í bobba.
Hæstiréttur setji sér sínar eigin siðareglur og hafi falið dómurunum sjálfum að ákveða hvort og hvenær þeir skrá gjafir og tekjur í hagsmunaskráningu sína.