Þetta sagði Herbert Eyjólfsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, í hádegisfréttum á Bylgjunni. Hann og hans lið tók við vaktinni klukkan átta í morgun og var þá enn hiti í skipinu.
„Við náðum að lækka hann niður en það er að koma hiti aftur sem við erum að reyna að vinna á,“ segir Herbert.
Að neðan má sjá myndefni frá vettvangi í Njarðvíkurhöfn í nótt.
Slökkviliðið fékk útkall vegna brunans um klukkan tvö í nótt og voru þá sjö skipverjar um borð. Fjórir þeirra komust út að sjálfsdáðum og ómeiddir en tveir voru fluttir á sjúkrahús, annar illa haldinn með brunasár og er honum nú haldið sofandi á Landspítalanum í Fossvogi. Pólskur karlmaður sem hefði orðið fimmtugur á árinu lést í brunanum og lætur eftir sig eiginkonu og unglingsson í Póllandi.
Slökkvistarf hefur gengið hægt enda, eins og Herbert segir, mikill hiti í skipinu.
„Það er að leka sjór inn í skipið en það er líka að koma inn sjór frá okkur. Við erum að dæla og gera göt hér og þar um skipið til að dæla vatni inn,“ segir Herbert.
Hætta sé alltaf á að skipið sökkvi takist ekki að dæla sjónum út jafnóðum og honum er dælt um borð í skipið.
„Við erum að setja hérna aukadælur og Köfunarþjónusta Sigurðar er að störfum líka og að lána okkur dælur sem henta vel í þetta. Þannig að við erum að gera stærri göt til að komast að sjónum sem er hérna inni. Það er töluverður sjór í skipinu. Það var farið að halla vel í morgun og við erum búin að vera að dæla síðan klukkan átta,“ segir Herbert.
„Þetta tekur langan tíma og þetta er náttúrulega stálskip sem leiðir hita út um allt og maður veit aldrei hvar þetta blossar upp aftur.“