Körfubolti

Rockets ræður þjálfarann sem Celtics setti í bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ime Udoka mun stýra Houston Rockets á næstu leiktíð.
Ime Udoka mun stýra Houston Rockets á næstu leiktíð. EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Ime Udoka er nýr þjálfari Houston Rockets í NBA deildinni í körfubolta. Sá var rekinn frá Boston Celtics á síðasta ári fyrir framhjáhald með samstarfskonu sinni. Þá var hann ásakaður um að láta óæskileg ummæli falla um kvenmann sem starfaði fyrir félagið.

Samkvæmt öruggum heimildum vestanhafs verður Udoka næsti aðalþjálfari Houston þó félagið eigi enn eftir að opinbera ráðninguna. Undir stjórn Udoka komst Celtics alla leið í úrslit NBA deildarinnar í fyrsta skipti í 12 ár. Þar beið liðið þó lægri hlut gegn Golden State Warriors, 4-2.

Celtis dæmdi hinn 45 ára gamla Udoka í ársbann frá félaginu eftir að upp komst um ástarævintýri hans og samstarfskonu hans. Þótt sambandið hafi verið með samþykki beggja aðila var það brot á reglum Boston um samskipti starfsfólks.

„Ég vil biðja leikmenn, stuðningsmenn, öll hjá Boston Celtics og fjölskyldu mína afsökunar. Er miður mín að hafa sett liðið í þessa erfiðu stöðu og uni ákvörðun þess. Af virðingu við alla hlutaðeigandi ætla ég ekki að tjá mig frekar,“ sagði Udoka eftir að upp komst um framhjáhald hans.

Kom það í ljós eftir að félagið hóf rannsókn á hegðun þjálfarans eftir að önnur samstarfskona Udoka hafði ásakað hann um að láta óæskileg ummæli falla.

Nú er ljóst að Udoka mun ekki stýra Celtics á næstu leiktíð en hann hefur samið við Houston Rockets. Á hann að koma liðinu upp úr kjallara NBA deildarinnar en Houston hefur verið með slakari liðum deildarinnar undanfarin ár. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×