Körfubolti

Bene­dikt bjart­sýnn fyrir leik þrjú þrátt fyrir tap í kvöld

Aron Guðmundsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur Vísir/Hulda Margrét

Bene­dikt Guð­munds­son, þjálfari karla­liðs Njarð­víkur í körfu­bolta var að vonum svekktur með að hafa tapað leik tvo gegn Tinda­stól í úr­slita­keppni Subway deildarinnar en hann er þó stoltur af frammi­stöðu sinna leik­manna sem stigu upp eftir al­gjört af­hroð í leik eitt.

Tinda­stóls­menn eru komnir 2-0 yfir í undan­úr­slita­ein­víginu gegn Njarð­vík en allt annað var að sjá til þeirra græn­klæddu í kvöld miðað við frammi­stöðu liðsins í fyrsta leik sem tapaðist nokkuð örugg­lega í Njarð­vík.

„Ég hefði viljað fá þessa orku og þennan kraft í leik eitt, þetta var allt annað,“ sagði Bene­dikt í við­tali við Svala Björg­vins­son eftir leik. „Allt annað lið, allt annar kraftur og svona vil ég hafa þetta alltaf og þá erum við alltaf í mögu­leika á að vinna leiki. Ég er á­nægður með það en samt er það að­eins meira svekk­elsi núna að við skildum ekki hafa mætt svona í leik eitt en Stólarnir voru bara skrefi á undan í dag. “

Það voru margar villur dæmdar í leiknum í kvöld en Bene­dikt íjaði að því hvort hann ætti að fara í dómar­a­um­ræðu í við­talinu.

„Þetta var harður leikur en við ætluðum bara að spila á þeirri línu sem þeir hafa verið að spila á í seríunni, vera með smá fig­ht, en það þýddi bara að þeir voru hérna á víta­línunni í allt kvöld.“

Bjart­sýnn á heima­sigur á mið­viku­daginn

Njarð­vík er 2-0 undir í seríunni og það þýðir að Tinda­stóll þarf að­eins einn sigur til við­bótar til að klára hana. Njarð­víkingar ætla ekki að láta það gerast.

„Eftir leik eitt fór ég heim með al­gjört ó­bragð í munninum. Ég get sætt mig við tap, eins ömur­legt og það er, ef menn leggja sig fram líkt og þeir gerðu hér í kvöld. Eftir þennan leik er ég bjart­sýnn á heima­sigur á mið­viku­daginn og að við minnkum þennan mun niður í stöðuna 2-1. Svo mætum við hingað aftur og jöfnum þetta 2-2.

Þetta verður ekkert fyrsta serían í úr­slita­keppninni í Ís­lands­mótinu í ár sem fer í odda­leik eftir að annað liðið hefur komist í 2-0.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×