Fótbolti

Barcelona unnið sex­tíu leiki í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einu af mörkum dagsins fagnað.
Einu af mörkum dagsins fagnað. Twitter@FCBfemeni

Barcelona vann 4-0 sigur á Atlético Madríd í spænsku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag. Það væri ekki frásögu færandi nema fyrir þá staðreynd að Barcelona hefur nú unnið 60 deildarleiki í röð.

Annað árið í röð stefnir í að Barcelona fari í gegnum La Liga kvenna með fullt hús stiga. Liðið var nær ósigrandi á síðustu leiktíð en tókst samt sem áður ekki að vinna Meistaradeild Evrópu. Í ár er planið að vinna alla þá titla sem í boði eru ásamt því að vinna La Liga með fullt hús.

Sigur dagsins í dag var aldrei í hættu. Eftir rétt tæpan hálftíma skoraði Aitana Bonmati eftir sendingu frá Caroline Graham Hansen. Victoria Lopez bætti við öðru marki á fyrstu mínútu síðari hálfleiks og Hansen skoraði sjálf á 57. mínútu þegar Bonmati launaði henni greiðan og lagði upp mark fyrir norsku landsliðskonuna.

Það var svo undir lok leiks sem Bruna Vilamala bætti við fjórða markinu og tryggði 4-0 sigur Barcelona.

Eftir 25 leiki er Barcelona með 25 sigra, 105 mörk skoruð og aðeins 5 fengin á sig. Takist Real Madríd ekki að vinna Real Betis á morgun, sunnudag, er Barcelona orðið spænskur meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×