Margir urðu hissa þegar Vinnumálastofnun greip til þess ráðs um síðustu áramót að taka gömlu heimavist Háskóla Íslands á Laugarvatni undir hælisleitendur, alls um 60 manns, fólk sem hefur sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi en bíður þess að á fá svar á meðan unnið er úr umsóknum þeirra. Um 200 manns búa á Laugarvatni og höfðu íbúar áhyggjur af svona stórum hóp í litið samfélag. En það er öðru nær, allt hefur gengið eins og í sögu og ekkert óvænt komið upp á.
Ásta Stefánsdóttir er sveitarstjóri Bláskógabyggðar.
„Við fengum góðan hóp af ungu og spræku fólki, sem er bara að bíða eftir afgreiðslu sinna mála og njóta þess að vera á Laugarvatni á meðan það bíður,“ segir Ásta.
En hvað er fólkið að gera allan daginn?
„Það er nú misjafnt. Sumir hafa verið að bjóða sig fram í sjálfboðastörf í samfélaginu og aðrir eru að taka þátt í námskeiðum og fræðslu, sem er í boði fyrir hópinn. Svo er nokkuð mikið um að þau sé að fara í íþróttaaðstöðuna hérna, sund og íþróttasalinn og nota þá aðstöðu, sem er í boði.“
Ásta segir að ungt fólk sé um að ræða, mikið um barnlaus pör og konur, sem eru einar á ferð.
„Þannig að það hafa ekki komið börn til okkar enn þá þannig að það hefur ekki reynt á þjónustu leik- eða grunnskóla. Við vitum ekki hvað fólkið verður lengi á Laugarvatni, það á bara eftir að koma í ljós,“ segir Ásta.