Fótbolti

„Ætlar hann að skjóta úr þessu?“

Jón Már Ferro skrifar
Sveinn Margeir Hauksson, leikmaður KA.
Sveinn Margeir Hauksson, leikmaður KA. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

„Hvað er í gangi þarna, eigum við að ræða þetta eitthvað? Ég ætla að gera ráð fyrir því að hann sé á æfingasvæðinu og sé að setja boltann af þessu færi í samskeytin mjög reglulega. Annars getur ekki verið að hann fái að skjóta boltanum þaðan. Hvaða vitleysa er þetta?“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, sérfræðingur Bestu deildar Stúkunnar sem var vægast sagt hissa á tilraun Sveins.

Á 77. mínútu fékk KA aukaspyrnu á miðjum vallarhelming KR-inga. Hinn sókndjarfi miðjumaður KA, Sveinn Margeir Hauksson, tók skot úr aukaspyrnu sem fór himinhátt yfir markið. 

KA fékk KR í heimsókn í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. Leikurinn fór fram á mánudaginn og lauk með 1-1 jafntefli. Mörkin skoruðu Kristján Flóki Finnbogason, leikmaður KR, og Þorri Mar Þórisson, leikmaður KA.

Klippa: Stúkan: Aukaspyrna Sveins Margeirs

„Ætlar hann að skjóta úr þessu?“ spurði Sigurður Orri Kristjánsson, lýsandi leiksins.

„Neglir þessu hinumegin við Glerána. Metnaðarfull tilraun en hann hafði litla sem enga trú á þessu sjálfur sýndist mér,“ bætti Sigurður við í kjölfar spyrnunnar.

KA fær ÍBV í heimsókn á laugardaginn klukkan 16:00. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Bestu deildar rás Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×