Innherji

FME tjá­ir sig ekki hvort borg­inn­i hafi bor­ið að upp­lýs­a um „rút­ín­u­bréf“

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Dagur B. Eggertsson segir liggja fyrir hvaða mál verði ráðist í strax á þessu ári. Nú setjist nýi meirihlutinn yfir tímasetningar verkaefna út kjörtímabilið.
Dagur B. Eggertsson segir liggja fyrir hvaða mál verði ráðist í strax á þessu ári. Nú setjist nýi meirihlutinn yfir tímasetningar verkaefna út kjörtímabilið. Vísir/Ragnar

Fjármálaeftirlit Seðlabankans getur ekki tjáð sig hvort það muni taka til skoðunar hvort Reykjavíkurborg hafi átt að tilkynna til Kauphallarinnar að henni hafi borist bréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Reykjavíkurborg er með skuldabréfaflokka skráða í Kauphöllina.

„Vegna þess trúnaðar sem ríkir um starfsemi fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands getum við almennt ekki tjáð okkur um hvort ákveðin mál eru til skoðunar eða ekki,“ segir Fjármálaeftirlit Seðlabankans.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, vakti athygli á því í gær að borginni hafi fengið bréfið 28. febrúar. Þar voru gerðar athugasemdir við að Reykjavík uppfylli ekki öll lágmarksviðmið fyrir rekstur A-hluta, það er aðalsjóður borgarinnar sem felur í sér sjóði og stofnanir sem eru rekin fyrir skattfé borgarbúa.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.vísir/vilhelm

Nefnd­in sendi bréf til 21 sveit­ar­fé­lags vegna fjár­hags­áætl­un­ar fyr­ir árið 2023.

Í bréfinu kemur fram að hlutfall nettóskulda borgarinnar af tekjum sé 92,9 prósent samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2023. Rekstrarniðurstaða samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið þyrfti að vera jákvæð miðað við gefnar forsendur en er neikvæð um 3,7 prósent.

Sveit­ar­stjórn­um er heim­ilt að víkja frá skil­yrðum um jafn­væg­is- og skuld­a­reglu út árið 2025, sam­kvæmt bráðabirgðaákvæði í sveita­stjórn­ar­lög­um. Eft­ir­lits­nefnd­in legg­ur engu að síður þá skyldu á borg­ina, sem og önn­ur sveit­ar­fé­lög, að árið 2026 þurfi að upp­fylla skil­yrðin.

Halldóra Káradóttir, sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar, sagði í frétt Morgunblaðsins að það hafi ekki komið til álita að tilkynna Kauphöll um bréf eftirlitsnefndarinnar þar sem ekki hafi verið um „nýjar eða óþekktar upplýsingar að ræða“. Bendir hún á að í bréfinu sé vísað í upplýsingar sem fram komi í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023- 2027, sem kynnt hafi verið í Kauphöll í nóvember á síðasta ári.

Þetta er bara rútínu­bréf frá eft­ir­lits­nefnd­inni.

„Þetta er bara rútínu­bréf frá eft­ir­lits­nefnd­inni,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is. „Rekstr­arniðurstaða sveit­ar­fé­laga síðustu tvö, þrjú ár teng­ist því beint að sú stefna var tek­in af hálfu stjórn­valda að sveit­ar­fé­lög­in skyldu reka sig með halla og safna skuld­um í gegn­um far­ald­ur­inn. Þau voru hvött til fjár­fest­ing­ar þrátt fyr­ir auk­in út­gjöld og vænt tekju­fall.“

Annan mánuð í röð hætti Reykjavíkurborg í gær að gefa út skuldabréf á markaði. Viðmæl­end­ur ViðskiptaMogg­ans voru sam­hljóma um það að lít­ill áhugi hafi verið fyr­ir hendi af hálfu markaðsaðila um að taka þátt í fyr­ir­huguðu útboði borg­ar­inn­ar.

Dagur sagði í fréttum Stöðvar 2 að Reykjavík væri á áætlun varðandi lánsfjármögnun og búna að sækja sjö af 21 milljarði sem taka eigi að láni á þessu ári. Miðað við aðstæður á markaði hafi fjármálasvið borgarinnar ekki ástæðu til að fara í skuldabréfaútboð að sinni.

Við þurfum ekki á þessum peningum að halda núna vegna þess að við vorum búin að gera aðrar ráðstafanir til að sækja fé eftir öðrum leiðum.

„Rykið er einfaldlega ekki sest eftir síðustu stýrivaxtahækkanir, eftir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Við höfum trú á að það verði betra jafnvægi á markaðnum þegar líður á árið. Við þurfum ekki á þessum peningum að halda núna vegna þess að við vorum búin að gera aðrar ráðstafanir til að sækja fé eftir öðrum leiðum,“ sagði Dagur.

Reykjavíkurborg hefur nýtt alls níu milljarða króna af tólf milljarða lánalínum sem borgin hefur fengið frá Íslandsbanka og Landsbankanum síðustu sex mánuði. Borgin fullnýtti sex milljarða króna lánalínu frá Landsbankanum sem samþykkt var í október síðastliðnum til fjármögnunar fjármálaáætlun ársins 2022. Þá hefur borgin dregið þrjá milljarða af alls sex milljarða króna lánalínu Íslandsbanka sem samþykkt var í janúar, segir í frétt Morgunblaðsins.

Borgin er í mjög miklum fjárfestingum vegna þess að borgin væri að stækka. „Við erum að fara í nokkur nýbyggingarhverfi. Við erum í viðhaldsátaki í skólum. Við erum að fjölga leikskólaplássum mjög verulega. Erum einfaldlega að þjóna vaxandi borg. Það útheimtir fjárfestingar og fyrir því erum við að taka lán,“ sagði borgarstjóri við Stöð 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×