Umræðan

Þakklætisvottur fyrir fórnfýsi stjórnvalda

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Stundum er haft á orði, þó aðallega í kreðsum sem hallast til hægri, að ríkisvaldið hafi þann háttinn á að brjóta á þér lappirnar, rétta þér hækjur og hreykja sér síðan af því að þú getir með erfiðismunum haltrað áfram. Það er óneitanlega sannleikskorn í þessari myndlíkingu.

Hið opinbera, svo að eitt dæmi sé nefnt, er stærsta hindrunin í vegi þess að framboð á fasteignamarkaði haldi í við eftirspurn. Hækjurnar eru í þessu tilfelli fjárhagslegur stuðningur við íbúðakaupendur og gildir þá einu hvort um er að ræða hlutdeildarlán Framsóknarflokksins, áherslur Samfylkingarinnar á hækkun alls konar bóta eða furðuleg áform Sjálfstæðisflokksins um skattaívilnanir fyrir erfingja. Allt er þetta til þess fallið að kynda undir eftirspurn eftir íbúðum en framboðið verður eftir sem áður tregbreytilegt.

Það verður ekki litið fram hjá því að ríkisstjórnin hefur sjálf lagt sáralítið af mörkum til þess að koma ríkisfjármálunum í rétt horf.

En gott og vel, svona hefur þetta alltaf verið og fátt bendir til þess að skynsemin taki völdin í stjórnmálum. Það þykir þó heldur kræft, og jaðrar satt að segja við ósvífni, þegar ríkisvaldinu nægir ekki lengur að stæra sig af því að hafa útvegað þér hækjur heldur byrjar að rukka fyrir afnotin.

Í nýrri fjármálaáætlun boðar ríkisstjórnin skattahækkanir, meðal annars tímabundna hækkun á tekjuskatti fyrirtækja, í því skyni að koma böndum á ríkisfjármálin. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra réttlætti skattahækkanirnar með vísan til þess að ríkissjóður hefði tekið á sig þungar byrðar í veirufaraldrinum.

„Við lögðum ríkissjóð undir til að styðja við atvinnulíf og almenning í landinu,“ sagði ráðherra. „Við vonumst til þess að með þessari tekjuöflun geti atvinnulífið lagt sitt af mörkum.“ Orðalagið skapar þau hughrif að ríkisstjórnin sjálf hafi fært einhverjar fórnir fyrir atvinnulífið og nú sé komið að skuldadögum. Hér er öllu snúið á hvolf.

Nú þegar faraldurinn er að baki er ljóst að sóttvarnaraðgerðum var haldið til streitu jafnvel þó að þær hefðu ekki skilað þjóðinni neinum lýðheilsulegum ávinningi. Þvert á móti er margt sem bendir til þess – sér í lagi gögn um umframdauðsföll – að Svíar hafi komið betur út úr faraldrinum þrátt fyrir að hafa verið mun afslappaðri í sinni nálgun. Íslendingar sem bjuggu í Svíþjóð á meðan faraldrinum stóð – greinarhöfundur er þeirra á meðal – þekkja af eigin raun hvers lýjandi var að heimsækja Ísland á þessum tíma.

Ráðherrar hafa verið algjörlega ófúsir til að taka sársaukafullar en nauðsynlegar ákvarðanir í ríkisrekstrinum af ótta við að glata hylli kjósenda.

Við uppskárum lítið fyrir að skella öllu í lás en sitjum uppi með reikninginn fyrir stórfelldar mótvægisaðgerðir. Ríkissjóður er skuldugur, hann ber þyngri vaxtabyrði en flest þau ríki sem við berum okkur saman við og í ofanálag eru ríkisútgjöldin enn á miklu skriði. Á tveimur árum, frá útgáfu fjármálaáætlunar árið 2021 til útgáfu fjármálaáætlunar árið 2023, hafa væntingar ríkissjóðs um heildarútgjöld á árinu 2025 aukist um 24 prósent. Þetta nýja norm er arfleifð sitjandi ríkisstjórnar. 

Ráðamenn munu aldrei gangast við því að hafa skuldsett þjóðina svo gríðarlega að ósekju og reyndar eru ekki uppi sérstakar kröfur um játningu. Forsætisráðherra gengur hins vegar fulllangt þegar hann segir að atvinnulífið geti lagt meira af mörkum. Þetta er dæmalaus fullyrðing í ljósi þess að atvinnulífið, bæði fólk og fyrirtæki, var skikkað til að fylgja ströngum sóttvarnareglum og greiðir á endanum allan kostnaðinn sem þær höfðu í för með sér. 

Og það verður ekki litið fram hjá því að ríkisstjórnin hefur sjálf lagt sáralítið af mörkum til þess að koma ríkisfjármálunum í rétt horf og leggjast þannig á sveif með Seðlabankanum í baráttunni gegn stærsta efnahagsvandanum í dag, verðbólgunni. Ráðherrar hafa verið algjörlega ófúsir til að taka sársaukafullar en nauðsynlegar ákvarðanir í ríkisrekstrinum af ótta við að glata hylli kjósenda. Þeir sitja á pólitísku kapítali eins og ormar á gulli en krefja aðra um fórnir.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja.




Umræðan

Sjá meira


×