Á vef veðurstofunnar segir að á suðausturlandi sé búist við talsverðri rigningu, en mikilli um tíma austan Öræfa. Búast megi við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem auki hættu á flóðum og skriðuföllum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát.
Sama á við um Austurlandið.
Veðurstofan varar einnig við aukinni skriðuhættu vegna úrkomu næstu tvo sólarhringa á suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum:
„Samkvæmt veðurspánni gæti uppsöfnuð úrkoma víða farið yfir 150 mm á næstu 48 klst. Úrkomuákefðinni er spáð mest um 5-10 mm á klst og hiti á bilinu 3-8°C. Frost er að fara úr efstu lögum jarðvegs en frost er víða undir og auðvelt fyrir yfirborð að mettast af vatni. Við slíkar aðstæður eykst hætta á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum.“
