Lögreglunni barst fyrst tilkynning um málið klukkan hálf þrjú, aðfaranótt þriðjudags. Fór lögreglan á staðinn og fannst Lee þá meðvitundarlaus með tvö stungusár á bringu. Hann var fluttur með hraði á sjúkrahús en var þar úrskurðaður látinn.
Lee var stofnandi smáforritsins Cash App þar sem notendur geta sent pening sín á milli með auðveldari hætti en áður, svipað forrit og Aur og Kass eru fyrir okkur Íslendinga. 44 milljónir manna nota forritið og var árið 2020 verðmetið á 40 milljarða bandaríkjadala, 5 þúsund milljarða íslenskra króna.
BBC greinir frá því að á öryggismyndavélum megi sjá Lee ganga á milli bíla að reyna að fá aðstoð. Við einn bílinn lyfti hann bol sínum til að sýna stungusár en ökumaðurinn keyrði í burtu.
Lee var búsettur í Miami en staddur í San Francisco til að taka þátt í ráðstefnu. Þá ákvað hann að vera í borginni lengur til þess að hitta vini sína sem búa þar.
„Ég var að missa besta vin minn, son minn Bob Lee þegar hann lést á götum San Francisco snemma á þriðjudagsmorgun,“ skrifaði faðir Lee, Rick Lee, á Facebook í gær.