Innlent

Her­mann nýr ráðu­neytis­­stjóri í inn­viða­ráðu­neytinu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Hermann Sæmundsson, nýr ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu.
Hermann Sæmundsson, nýr ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu. Stjórnarráðið

Hermann Sæmundsson stjórnmálafræðingur hefur verið skipaður ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu. Hermann tekur við embættinu 1. maí þegar Ragnhildur Hjaltadóttir lætur af störfum. Fjórir sóttu um starfið.

„Hermann hefur starfað í Stjórnarráði Íslands frá því í október 1996 en þá réðst hann til starfa sem sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í félagsmálaráðuneytinu. Hann var skipaður í embætti skrifstofustjóra í sama ráðuneyti árið 2002. Frá 2004 til 2008 var hann fulltrúi félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í sendiráði Íslands í Brüssel en tók við sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að því loknu. 

Hermann var skipaður skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu í ársbyrjun 2011 en við uppskiptingu þess um mitt ár 2017 tók hann stöðu skrifstofustjóra skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Hermann var skipaður skrifstofustjóri stefnumála í forsætisráðuneytinu í október 2021,“ segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Hermann er fæddur árið 1965, tók stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra 1986, lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá HÍ árið 1991 og meistaraprófi frá Háskólanum í Árósum í stjórnsýslu- og stjórnmálafræði árið 1996.

Eins og fyrr segir bárust fjórar umsóknir um embættið sem auglýst var í janúar. Sérstök hæfnisnefnd var skipuð til að meta hæfni umsækjenda. Nefndin taldi Hermann hæfastan og eftir viðtöl við umsækjendur, og að teknu tilliti til álits hæfnisnefndar, ákvað Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra að skipa Hermann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×