Erlent

Trump kominn til New York og verður leiddur fyrir dómara kl. 18.15

Hólmfríður Gísladóttir og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Trump veifaði til viðstaddra fyrir utan Trump Tower þegar hann kom til New York í gær.
Trump veifaði til viðstaddra fyrir utan Trump Tower þegar hann kom til New York í gær. AP/Bryan Woolston

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kom til New York í gær. Síðar í dag, um klukkan 18 að íslenskum tíma, fer fram þingfesting í máli gegn honum í tengslum við mútugreiðslur til klámmyndastjörnunnar Stormy Daniels.

Um er að ræða fyrsta skiptið í sögu Bandaríkjanna sem fyrrverandi forseti er ákærður í sakamáli. 

Ákæran gegn Trump hefur ekki verið gerð opinber en er sögð vera í yfir 30 liðum. Hvað forsetanum fyrrverandi er gert að sök kemur í ljós þegar hann verður leiddur fyrir dómara.

Fastlega má gera ráð fyrir að Trump lýsi sig saklausan.

Samkvæmt erlendum miðlum verður fasteignamógúllinn myndaður og fingraför hans tekin. Lögmenn hans hafa hins vegar samið við saksóknarann í málinu um að hann verði ekki handjárnaður.

Fregnir höfðu borist af því að Trump hefði jafnvel vonast til að þess að verða settur í járn, til að hvetja stuðningsmenn sína til mótmæla. Nú segjast lögmenn hans hins vegar vonast til að þingfestingin verði eins virðuleg og mögulegt er.

Þeir hafa sett sig upp á móti beinum útsendingum frá réttarhöldunum og dómarinn í málinu, Juan Mechan, ákvað í gær að aðeins fimm ljósmyndurum yrði heimilað að taka myndir í dómsalnum í nokkrar mínútur áður en þingfestingin hefst og tökuvélar aðeins leyfðar á göngum dómshússins.

Greint var frá því í gær að Trump hygðist fljúga aftur til Flórída eftir þingfestinguna og ávarpa stuðningsmenn sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×