Frá þessu er greint í Fréttablaðinu en Sunna er þarna að vísa til þolenda séra Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digraneskirkju, sem biskup vék frá störfum eftir að nefnd komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði gerst sekur um einelti, kynbundna- og kynferðislega áreitni gegn sex konum.
„Organistinn er síðasti þolandinn sem fær að fjúka úr Digranesi og hefur þá orðið algjör og fordæmalaus hreinsun á starfsfólki innan kirkjunnar sem stóð að baki skýrslunni gegn Gunnari, ásamt konum sem voru á hliðarlínunni með tengsl og annars konar ofbeldismál gegn til dæmis núverandi sóknarnefndarformanni,“ hefur Fréttablaðið eftir Sunnu.
Umræddur formaður sóknarnefndar, Valgerður Snæland Jónsdóttir, hefur lýst því yfir að sóknarnefndin vilji fá Gunnar aftur til starfa þrátt fyrir niðurstöðu teymis Þjóðkirkjunnar. Á vefsíðu kirkjunnar er Gunnar skráður í leyfi.
Sunna segir málið fordæmalaust en stöðuna sem upp er komin má rekja til fyrirkomulags ráðninga við kirkjur landsins, þar sem biskup skipar presta en sóknarnefndir ráða annað starfsfólk.
„Það er ekkert í starfsreglum kirkjunnar sem heimilar biskupsembættinu að hrófla við sóknarnefndum þegar svona mál koma upp og þar liggur vandinn,“ segir Sunna.
Samkvæmt Fréttablaðinu staðfesti Valgerður uppsögn Sólveigar Sigríðar en formaður FÍH segir hana hins vegar ógilda, þar sem organistinn hafi verið búin að virkja veikindarétt sinn áður en uppsögnin átti sér stað.
Sólveig er ekki fyrsti starfsmaður Digraneskirkju til að fara í veikindaleyfi í kjölfar málsins en Sigríður Sigurðardóttir kirkjuvörður fór í veikindaleyfi í kjölfar atvika sem hún lýsti sem andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu formanns sóknarnefndar.