Rýmingin gildir frá klukkan 14:00 og þangað til að önnur tilkynning verður gefin út að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Fyrr í dag var sagt frá því að helsta áhyggjuefnið nú væru möguleg krapaflóð og aurskriður. Það bætist við snjóflóðahættu sem einnig sé á svæðinu og hafa einhver flóð fallið í morgun.
Göturnar sem um ræðir á Stöðvarfirði eru:
- Borgargerði 2
- Hólaland 12 & 12a
- Túngata 8
- Skólabraut 20
- Sundlaugin á Stöðvarfirði
- Fjarðarbraut 55 & 56
- Hús neðan við Fjarðarbraut 56
Íbúar eru beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í Gamla samkomusalnum eða hafa samband í síma 1717 ef fyrirhugaður dvalarstaður liggur fyrir.
- Á Fáskrúðsfirði hefur verið ákveðið að rýma húsið Ljósaland
Fulltrúar aðgerðastjórnar munu fara milli húsa frá klukkan 13 og 14 og aðstoða og veita leiðbeiningar þeim er þurfa.
Tvær appelsínugular viðvaranir eru í gildi á Austfjörðum, annars vegar vegna mikillar snjókomu og skafrennings, einkum norðantil, sem gildir til níu í fyrramálið og hins vegar vegna mikillar rigningar og asahláku samhliða hlýnandi veðri sunnantil, sem er í gildi til miðnættis en þá tekur gul viðvörun við út morgundaginn.