Vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofunni sagði í samtali við fréttastofu í morgun að fyrir austan sé nú rigning slydda eða snjókoma. Fylgst er náið með stöðunni en seinni partinn í dag er gert ráð fyrir að úrkoma verði mest orðin í formi rigningar. Því er búist við asahláku á svæðinu um miðjan dag í dag. Einhverri úrkomu er síðan spáð á morgun, en ekki eins mikilli og í dag.
Um veðrið á landinu segir að búist sé við austlægri átt í dag, sums staða hvassviðri eða jafnvel stormi suðaustanlands og með austurstöndinni. Lítilsháttar rigning eða slydda öðru hvoru vestantil á landinu og verður hiti á bilinu núll til tíu stig. Svalast verður í innsveitum norðaustanlands.
„Á morgun leggst hann í suðaustankalda eða -strekking. Úrkomulaust að kalla á Norðurlandi, en annars rigning með köflum og hlýnar í veðri fyrir norðan. Snýst síðan í útsynningskalda á laugardag með skúrum eða slydduéljum og kólnandi veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Suðaustan 8-15 m/s, hvassast með austurströndinni. Þurrt að kalla á Norðurlandi, annars rigning eða slydda með köflum, talsverð úrkoma á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast fyrir norðan.
Á laugardag: Suðaustlæg átt, 5-13 m/s og skúrir eða slydduél, en rigning eða slydda suðaustanlands og á Austfjörðum fram eftir degi. Hiti 1 til 8 stig, svalast inn til landsins.
Á sunnudag: Suðvestan 8-15 m/s með skúrum eða éljum, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Kólnandi veður í bili.
Á mánudag: Gengur í hvassa austanátt með talsverðri rigningu, en sums staðar slyddu eða snjókomu fyrir norðan. Hlýnandi veður.
Á þriðjudag: Útlit fyrir hæga suðlæga eða breytilega átt með skúrum víða um land og milt veður.
Á miðvikudag: Líklega ákveðin suðvestanátt með skúrum eða éljum og heldur kólnandi veður.