Sport

Tvö hafa slegið Íslandsmet í vetur sem voru eldri en þau sjálf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrea Kolbeinsdóttir setti glæsilegt Íslandsmet um helgina.
Andrea Kolbeinsdóttir setti glæsilegt Íslandsmet um helgina. Instagram/@andreakolbeins

Þau eru ófá Íslandsmetin sem féllu á þessu innanhúss tímabili í frjálsum íþróttum og enn eitt metið féll um helgina.

Andrea Kolbeinsdóttir stórbætti þá Íslandsmetið í 5000 metra hlaupi innanhúss en þetta gerði hún á Góumóti Gaflarans.

Andrea hljóp á 16:46,18 mínútum og bætti þar með gamla metið um meira en 39 sekúndur sem er rosaleg bæting.

Það sem meira er að gamla metið, sem var 17:25,34 mínútur, hafði verið í eigu Fríðu Rún Þórðardóttur frá því í febrúar árið 1994.

Andrea er fædd í febrúar 1999 og það voru því enn fimm ár og fjórum dögum betur í það að hún kæmi í heiminn þegar Fríða setti metið.

Andrea hafði best áður hlaupið 5000 metra hlaupið á 17:43.61 mínútum innanhúss en það gerði Andrea þegar hún var bara nítján ára gömul árið 2018.

Þetta er í annað skiptið á þessu innanhúss tímabili sem frjálsíþróttamaður slær Íslandsmet í vetur sem var eldri en hann sjálfur.

Kolbeinn Höður Gunnarsson bætti Íslandsmetið í 60 metra hlaupi á Nike mótaröðinni í Kaplakrika 12. janúar síðastliðinn. Kolbeinn Höður kom á í mark á 6,68 sekúndum.

Gamla Íslandsmetið átti Einar Þór Einarsson sem hljóp á 6,80 sekúndum 6. febrúar 1993.

Kolbeinn Höður er fæddur í júlí 1995 og það voru því enn tvö ár og fimm mánuðir í það að hann kæmi í heiminn þegar Einar setti metið sem lifði á endanum í næstum því 28 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×