Innlent

Páll gefst ekki upp og blæs til söfnunar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Arnar Þór Ingólfsson, Páll Vilhjálmsson og Þórður Snær Júlíusson.
Arnar Þór Ingólfsson, Páll Vilhjálmsson og Þórður Snær Júlíusson. Vísir

Páll Vilhjálmsson, framhaldsskólakennari og bloggari, hefur sett af stað söfnun fyrir málskostnaði vegna áfrýjunar til Landsréttar. Páll var í vikunni dæmdur til að greiða blaðamönnum Kjarnans miskabætur vegna ummæla sem hann lét falla í tengslum við Samherjamálið.

„Til­fallandi bloggari var fyrir helgi dæmdur til að greiða tveim blaða­mönnum RSK-miðla um 1,5 m.kr. vegna blogg­skrifa um aðild RSK-miðla að byrlun Páls skip­stjóra Stein­gríms­sonar og stuldi á síma. […] Tjáningar­frelsið er sem sagt fyrir fá­eina út­valda. Þeir sem and­æfa ráðandi frá­sögn fjöl­miðla og vekja at­hygli á lög­leysunni hljóta verra af - til dæmis máls­sókn. Dómnum frá föstu­dag verður á­frýjað enda tekur engu tali að ekki megi segja á opin­berum vett­vangi að máls­aðilar eigi aðild, beina eða ó­beina,“ segir Páll Vil­hjálms­son á blogg­síðu sinni.

Byrlun og stuldur á síma

Þeir Þórður Snær Júlíus­son, rit­stjóri Heimildarinnar, og Arnar Þór Ingólfs­son, blaða­maður sama miðils, stefndu Páli fyrir meið­yrði og kröfðust ó­merkingar á tvennum um­mælum á blogg­síðu hans á vef­svæði mbl.is

Um­mælin sem Páll lét falla, og dæmd voru ó­merk, voru af tvennum toga. Annars vegar voru það um­mæli um að tví­menningarnir hefðu átt „aðild, beina eða ó­beina“ að því að Páli Stein­gríms­syni, skip­stjóra hjá Sam­herja, hefði verið byrlað og síma hans stolið. Hins vegar voru það um­mæli Páls um að sak­sóknari gæfi út á­kæru á hendur blaða­mönnunum.

  1. Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, ... eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.
  2. Saksóknari mun gefa út ákæru á hendur blaðamönnum RSK-miðla, líklega í september

Páll Vil­hjálms­­son hefur í­trekað fjallað um málið og ýjað að því að Þórður Snær og Arnar Þór hafi átt þátt í að Páli skip­­stjóra var byrlað og síma hans stolið. Héraðs­­dómari taldi Pál hafa farið út fyrir mörk leyfi­­legrar tjáningar og um­­­mælin því dæmd ó­­­merk. Mat dómsins væri að um æru­meiðandi að­dróttun hafi verið að ræða, og í um­mælunum fælist ó­lög­mæt mein­gerð, sem væri þar af leiðandi skaðabótaskyld.

„RSK-miðlar, RÚV, Stundin og Kjarninn (nú Heimildin) eru fjár­­magnaðir af ríkinu. RÚV er á fjár­lögum og Heimildin fær fjöl­­miðla­­styrk úr ríkis­­sjóði. Til­­­fallandi bloggari er launa­­maður. Les­endur hafa haft sam­band og spurt hvernig mætti leggja til­­­fallandi at­huga­­semdum lið með fjár­­fram­lagi vegna máls­­kostnaðar,“ segir Páll á blogg­­síðu sinni að lokum, og bendir á þar­til­­gerðan styrktar­­reikning.


Tengdar fréttir

Páll dæmdur fyrir um­mæli um Heimildar­menn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ómerkt ummæli sem Páll Vilhjálmsson, framhaldsskólakennari og bloggari, lét falla um blaðamenn Kjarnans. Páll hélt því fram að blaðamennirnir hefðu átt þátt í byrlun og þjófnaði í tengslum við umfjöllun um leynilega áhrifaherferð sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja.

„Ég er orðinn ýmsu vanur en þetta sló mig veru­lega“

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar, áður Kjarnans, sagðist fyrir dómi í morgun aldrei hafa hitt Pál Steingrímsson skipsstjóra, aldrei stolið af honum síma, né hefði hann átt beinan eða óbeinan þátt í að byrla honum né nokkrum manni. Þá sagði hann skýrslu réttarmeinafræðings sýna fram á að Páli hefði í raun aldrei verið byrlað. Verjandi Páls Vilhjálmssonar sagði málið ekki flókið og að það snérist um tjáningarfrelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×