„Hailey Bieber hafði samband við mig og lét mig vita að henni hafi borist morðhótanir og önnur hatursfull skilaboð. Þetta er ekki það sem ég stend fyrir. Enginn ætti að þurfa sitja undir hatri eða einelti. Ég hef alltaf verið talsmaður góðmennsku og vil virkilega binda endi á þetta allt saman,“ skrifaði Selena á Instagram í dag.
Þessi yfirlýsing kemur í kjölfar drama þeirra á milli, eða réttara sagt á milli aðdáenda þeirra, sem tekið hefur yfir samfélagsmiðla undanfarna mánuði.
Vísir hefur fjallað ítarlega um málið og geta áhugasamir lesið þá umfjöllun hér fyrir neðan.
Til að gera langa sögu stutta hefur þeim Hailey og Selenu verið stillt upp á móti hvor annarri í mörg ár. Hailey er eiginkona tónlistarmannsins Justins Bieber en hann var áður í sambandi með Selenu. Hailey er sökuð um að hafa stolið Justin af Selenu á sínum tíma. Undanfarnar vikur hafa netheimar logað eftir að Hailey og Kylie Jenner voru taldar hafa gert grín að augabrúnum Selenu Gomez.
Í kjölfarið má segja að notendur TikTok hafi skipst í tvær fylkingar: lið Selenu og lið Hailey og er óhætt að fullyrða að lið Selenu sé talsvert stærra. Aðdáendur Selenu hafa keppst við að grafa upp gamalt myndefni af Hailey með það að markmiði að láta hana líta illa út.
Nú hefur allt þetta drama hins vegar farið heilan hring og vilja einhverjir nú meina að atburðir síðustu vikna séu ekkert annað en neteinelti í garð Hailey. Hvorki Hailey né eiginmaður hennar Justin Bieber hafa þó tjáð sig nokkuð um málið.
