Erlent

Svört skýrsla um ras­isma og kven­fyrir­litningu hjá Lundúnar­lög­reglunni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Casey dregur ekkert undan og málar afar dökka mynd af lögreglunni í skýrslunni.
Casey dregur ekkert undan og málar afar dökka mynd af lögreglunni í skýrslunni. epa/Kirsty O'Connor

Lundúnarlögreglan er ónýt, rúin trausti og þjáist af kerfisbundnum rasisma, kvenfyrirlitningu og fordómum gegn samkynhneigðum. Þetta segir í nýrri 363 blaðsíðna skýrslu um stöðu lögreglunnar, sem unnin var undir forystu barónessunnar Louise Casey.

Það voru yfirmenn Lundúnarlögreglunnar sem óskuðu eftir skýrslunni eftir að lögreglumaður var fundinn sekur um að hafa rænt Söruh Everard árið 2021, nauðgað henni og myrt.

Í skýrslunni er meðal annars að finna sögur af kynferðisbrotum sem oftar en ekki var hylmt yfir eða gert lítið úr. Þá segjast 12 prósent kvenna innan lögreglunnar hafa orðið fyrir áreitni eða árásum í vinnunni og þriðjungur hafa upplifað mismunun á grundvelli kyns.

Menningin innan Lundúnarlögreglunnar virðist hafa einkennst af einelti og mismunun og vonbrigðum lögreglumanna með framgöngu yfirmanna sinna.

Einn lögreglumaður sem var múslimi fann beikon í skónum sínum og þá var skegg síka skorið. Lögreglumenn úr röðum minnihlutahópa voru mun líklegri til að sæta agaviðurlögum og svartir mun líklegri til að sæta harkalegum aðgerðum af hálfu lögreglu.

Enn fremur er hlutfall hvítra lögreglumanna mun hærra en meðal íbúa Lundúna.

Að sögn Casey virðist vandinn sem steðjar að Lundúnarlögreglunni bókstaflega ógna tilvist hennar. Segir hún að ef ekki verði gripið til aðgerða liggi fyrir að best væri að búta embættið niður í smærri einingar.

Skýrslunni hefur almennt verið fagnað, meðal annars af borgarstjóranum Sadiq Khan og innanríkisráðherranum Suellu Braverman. 

Sir Mark Rowley, yfirmaður Lundúnarlögreglunnar, sagðist samþykkja niðurstöðurnar en vildi ekki ganga svo langt að tala um kerfisbundinn rasisma og kvenfyrirlitningu. „Kerfisbundin“, eða „stofnanabundin“, væri pólitískt hugtak.

Hér má finna ítarlega frétt Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×