Erlent

Æfðu kjarn­orku­á­rás á Suður-Kóreu

Kjartan Kjartansson skrifar
Skammdrægt flugskeyti sem var skotið á loft í æfingum Norður-Kóreu fyrir kjarnorkuárás um helgina.
Skammdrægt flugskeyti sem var skotið á loft í æfingum Norður-Kóreu fyrir kjarnorkuárás um helgina. AP/Norðurkóreska ríkisfréttastofan KCNA

Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafði umsjón með æfingum hersins fyrir kjarnorkugagnárás á Suður-Kóreu um helgina. Yfirlýst markmið æfinganna var að slá ótta í brjóst fjandríkja landsins.

Þau nýmæli voru á æfingunni að skammdrægum flugskeytum virðist hafa verið skotið úr niðurgröfnum skotbyrgjum. Hernaðarsérfræðingar segja að það geti hjálpað Norðurkóreumönnum í tilraunum þeirra með langdræg flugskeyti. Kim sást fylgjast með æfingunum með ungri dóttur sinni á myndum ríkisfjölmiðilsins.

Kim hvatti herinn til að vera í viðbragðsstöðu fyrir kjarnorkugagnárás á hverri stundu. Sakaði hann óvini landsins um vaxandi yfirgang sem krefðist þess að Norður-Kórea legði aukinn kraft í kjarnavopnaáætlun sína, að því er segir í frétt Reuters.

„Kjarnorkumáttur Norður-Kóreu mun fæla sterklega og hafa hemil á glannalegum aðgerðum og ögrunum óvinarins,“ sagði Kim.

Stjórnvöld í Pjongjang eru afar ósátt við heræfingar nágranna sinna í suðri og bandalagsríkja þeirra og líta á þær sem undirbúning á innrás. Suður-Kórea og Bandaríkin hafa meðal annars staðið við æfingum í lofti og á legi. Í dag ætla sjóherir og landgöngulið landanna tveggja að æfa landgöngu saman í fyrsta skipti í fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×