Viðskipti innlent

Sena og Concept Events sameinast

Máni Snær Þorláksson skrifar
Stjórnendateymi Senu. Frá vinstri: Sandra, Ísleifur, Sindri, Lilja, Dagmar, Jón Diðrik, Lára
Stjórnendateymi Senu. Frá vinstri: Sandra, Ísleifur, Sindri, Lilja, Dagmar, Jón Diðrik, Lára Aðsend

Fyrirtækin Sena og Concept Events hafa gengið frá samkomulagi um kaup þess fyrrnefnda á því síðarnefnda. Við þetta munu fyrirtækin sameinast og bætast núverandi eigendur Concept Events í hluthafa- og stjórnendahóp Senu.

Greint er frá kaupunum í tilkynningu frá Senu. Þar kemur fram að markmið sameiningarinnar sé að styrkja rekstur fyrirtækjanna. 

Concept Events var stofnað af þeim Dagmar Haraldsdóttur og Söndru Ýr Dungal. Fram kemur í tilkynningunni að þær hafa báðar áratugareynslu af margvíslegri viðburðarstjórnun. 

„Báðar hafa þær skipulagt og framkvæmt nokkra af stærri viðburðum sem haldnir hafa verið hérlendis,“ segir í tilkynningunni.

Jón Diðrik Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi Senu, segir það vera spennandi að sameina krafta Senu og Concept Events. „Við hlökkum til að taka næstu skref og leysa úr læðingi þá krafta sem nú búa í fyrirtækinu,“ er haft eftir Jóni í tilkynningunni.

Þá segja Dagmar og Sandra að þær horfi til framtíðarinnar með eftirvæntingu og að þær sjái fram á spennandi tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×