Erlent

Opnað á ísbjarnatúrisma á Grænlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ísbjörn á fullri ferð.
Ísbjörn á fullri ferð. Getty

Yfirvöld í Grænlandi hafa ákveðið að slaka á reglum sem gilda um það að nálgast ísbirni þar í landi. Reglubreytingin opnar á svokallaðan ísbjarnatúrisma.

DR í Danmörku greinir frá og vísar í umrædda reglugerðarbreytingu. Hingað til hefur verið bannað að lokka ísbirni til sín, nálgast þá, elta eða trufla á einhvern hátt.

Breytingin heimilar nú leiðsögumönnum sem afla sér sértaks leyfis yfirvalda, að selja ferðir til að skoða ísbirni og heimkynni þeirra. Slík leyfi verða þó aðeins veitt þeim sem búa að staðaldri á Grænlandi og uppfylla ákveðin skilyrði.

Í frétt DR er haft eftir Fernando Ugarte, starfsmanni Náttúrufræðistofnunar Grænlands, að ísbjarnatúrismi geti reynst jákvæður fyrir efnahag Grænlands. Ekki sé útlit fyrir að hinar nýju reglur muni hafa slæm áhrif á ísbirnina á Grænlandi, svo lengi sem þeir sem bjóði upp á slíkar ferðir geri það á ábyrgan hátt.

Vivian Motzfeld, utanríkisráðherra Grænlands, segist ánægð með að hægt verði að bjóði á ísbjarnaskoðunarferðir. Þar með geti grænlensk ferðaþjónustufyrirtæki boðið viðskiptavinum sínum upp á einstaka upplifun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×