Fótbolti

Dómarar í bann eftir að hafa bætt 42 mínútum við leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Átta mínútur þykir mikið í uppbótatíma og hvað þá þegar hann er fimm sinnum lengri.
Átta mínútur þykir mikið í uppbótatíma og hvað þá þegar hann er fimm sinnum lengri. Getty/Visionhaus

Sex manna bólivískur dómararhópur var settur í bann í heilu lagi eftir leik í efstu deild í Bólivíu.

Knattspyrnusamband Bólivíu ákvað að setja alla dómarana í bann eftir umdeildan enda á leik Palmaflor og Blooming um helgina.

Dómarinn Julio Gutierrez bætti 42 mínútum við leikinn sem Palmaflor vann 3-2 sigur.

Ástæðan fyrir því að Gutierrez bætti öllum þessum mínútum við kom til vegna þess að myndbandadómararnir þurftu að taka sér mjög langan tíma í skoða tvö atriði. ESPN segir frá.

Annað atriðið sem tók svo langan tíma að skoða í Varsjánni var annað mark Palmaflor liðsins en hitt var þegar slagsmál brutust út sem enduðu með tveimur rauðum spjöldum á gestina.

Palmaflor skoraði sigurmark sitt í leiknum á 38. mínútu í uppbótatíma.

Forráðamenn Blooming voru mjög ósáttir með uppbótatímann og vöktu meðal annars athygli á því að með þessu hafi dómararnir sett leikmenn liðanna í mikla meiðslahættu.

Einn af hæstráðendum hjá Palmaflor er Evo Morales, fyrrum forseti landsins. Morales réð öllu í Bólivíu frá 2006 til 2019 en Palmaflor komst upp í efstu deild í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×