Lewis Capaldi átti að troða upp í Laugardalshöll þann 23. ágúst í fyrra. Þann 22. ágúst var þeim þó frestað vegna „vandamáls sem kom upp við framkvæmd“. Lofað var að tónleikarnir færu fram 11. ágúst á þessu ári í staðinn.
Þá var það fyrirtækið Reykjavík Live sem ætlaði að halda tónleikana en nú hefur Sena Live tekið yfir þá. Tónleikarnir hafa verið færðir yfir í gömlu Laugardalshöllina þar sem í mesta lagi fimm þúsund gestir komast fyrir.
Forsala Sena Live hefst á morgun klukkan 11 og almenn miðasala á föstudaginn klukkan 11. Nýir miðar hafa verið sendir á þá sem áttu miða á tónleikana fyrrasumar og hafa þeir forgang í dag á að kaupa fleiri miða áður en forsala hefst. Nánar má lesa um tónleikana á vef Senu.
Fréttastofa ræddi í sumar við einn gest sem ætlaði sér að mæta á tónleikana og var kominn til Reykjavíkur alla leið frá Reyðarfirði. Hann tapaði hundrað þúsund krónum á því að komast ekki á tónleikana.