Körfubolti

Rúnar og reglurnar sýndu að troðslan „sem hætti við“ var réttilega dæmd af

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Taiwo Badmus tróð boltanum í körfuna en það var ekki nóg til að fá tvö stig á töfluna. Reglurnar sýna að boltinn þurfi að fara í gegnum netið.
Taiwo Badmus tróð boltanum í körfuna en það var ekki nóg til að fá tvö stig á töfluna. Reglurnar sýna að boltinn þurfi að fara í gegnum netið. Vísir/Bára

Rúnar Birgir Gíslason, FIBA eftirlitsmaður, hefur leiðrétt strákana í Körfuboltakvöldi sem voru ekki alveg með leikreglurnar á hreinu á dögunum.

Í síðasta Subway Körfuboltakvöldi var það fullyrt að dómararnir hefðu gert mistök með því að dæma körfu af Tindastólsliðinu.

Karfan sem um ræðir var þegar Tindastólsmaðurinn Taiwo Badmus tróð boltanum í körfuna en boltinn fór aldrei alveg í gegnum netið og skaust þess í stað upp úr körfunni aftur.

Þegar betur er að gáð þá sýna körfuboltareglurnar það að dómarar leiksins höfðu rétt fyrir sér.

Rúnar Birgir sýndi körfuna „sem hætti við“ að fara í gegnum netið og um leið hvað körfuboltareglur FIBA segja til um slík dæmi. Þar kemur líka fram að þessi karfa hefði verið dæmd gild í NBA-deildinni.

„Í Körfuboltakvöldi á Stöð 2 síðasta föstudag var m.a. sýnt atvik þar sem Taiwo Badmus tróð knettinum og boltinn fór aldrei í gegnum netið en fór upp úr aftur. Dómarar dæmdu að þetta væri ekki karfa en í Körfuboltakvöldi var sagt að það væri rangt,“ skrifaði Rúnar Birgir Gíslason á fésbókarsíðu sína.

„Þar sem þetta er nokkuð skýrt dæmi þá langar mig að leiðrétta Körfuboltakvöld, ekki síst þar sem næsti þáttur er ekki fyrr en næsta föstudag og þá verður kominn tími til að hugsa um aðra hluti. Eins vil ég leyfa mér að leiðrétta þetta þar sem það er einhver umræða í gangi um þetta,“ skrifaði Rúnar Birgir.

Hér fyrir neðan má sjá nánari útskýringar á þessu frá Rúnari Birgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×