Neytendur

Hægt að sleppa við auka­gjöld flug­fé­laga með klækindum

Máni Snær Þorláksson skrifar
Breki Karlsson furðar sig á því að fólk sé rukkað fyrir að sitja hjá börnum sínum í flugvél.
Breki Karlsson furðar sig á því að fólk sé rukkað fyrir að sitja hjá börnum sínum í flugvél. Vísir/Sigurjón/Getty

Formaður Neytendasamtakanna segir fáránlegt að flugfélög rukki fólk fyrir að sitja með börnum sínum. Hann segir frá vinkonu sinni sem sleppir við aukagjöld með klækindum.

„Þetta er náttúrulega fáránlegt. Svona gjöld sem eru falin, eitthvað sem þú verður hvort sem er að greiða en sérð ekki fyrir fram, ættu bara ekki að eiga sér stað,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær.

Breki furðar sig til dæmis á því að foreldrar þurfi að borga fyrir sæti svo börn þeirra geti setið með þeim í fluginu.  Það sé fáránlegt að flugfélög virðist sundra fjölskyldum vísvitandi.

Hann kemur með dæmi um vinkonu sína sem á unga tvíbura en henni tekst að sleppa við aukagjöld með klækindum. Vinkonan kaupir ekki sæti, hún er með aðferð til að sjá til þess að börnin fái að sitja með henni.

„Ég á vinkonu sem mætir með fjögurra ára gamla tvíbura með sér og þau eru ekki með sæti saman. Hún afhendir börnin flugfreyjunni og sest svo niður og allt í „gúddí“. Undantekningalaust fær hún tvíburana til sín og þau sitja þrjú saman í sætum. Því er bara reddað um borð.“

Fáránlegt að fólk þurfi að ganga í gegnum þetta

Breki er ekki viss hvort hann myndi mæla með því að fólk tileinki sér aðferðir vinkonu sinnar. Þær hafi þó reynst henni vel til þessa.

„Það er náttúrulega fáránlegt að þurfa að ganga í gegnum þetta. Enda er það bara asnalegt að þurfa að taka það fram eða gera sérstakar ráðstafanir til þess að fólk sem kaupir sér miða saman að það fái sæti saman. Sér í lagi þegar flugfélögin vita alveg að um börn er að ræða.“

Hann segir að fólk eigi að krefjast þess af flugfélögunum að þau veiti börnum þann rétt að fá að sitja við hlið foreldra eða forráðamanna sinna í vélinni.

„Það á ekki að þurfa að borga aukalega fyrir súrefni“

Aðspurður um hvort samkeppni lággjaldaflugfélaganna sé ekki af hinu góða segir Breki að svo sé að sjálfsögðu. Hins vegar sé þörf á meira gegnsæi í verðlagningu.

„Það á ekki að þurfa að borga aukalega fyrir súrefni í vélinni eða hvað það nú er sem fólki dytti í hug að rukka fyrir,“ segir hann.

Misjafnt sé milli flugfélaga hvort rukkað sé fyrir það að börn sitji við hliðina á foreldrum sínum eða ekki. Fólk ætti að beina viðskiptum sínum til þeirra flugfélaga sem rukka ekki fyrir þetta.

Lokki fólk inn með loforðum um lágt verð

Þegar keyptir eru flugmiðar hjá lággjaldaflugfélögum er ekki sjálfsagt að verðið sem gefið er upp í upphafi samræmist því sem borgað er í lokin. „Sum lággjaldaflugfélög eru þannig að þau lokka mann inn með loforðum um lágt verð en svo kemur í ljós að það þarf að borga fyrir að tékka inn og hitt og þetta,“ segir Breki.

„Á endanum er það ekkert eins gott verð en maður er kominn of langt inn í ferlið þannig maður nennir ekki að bakka.“

Breki vill að þetta sé eitthvað sem ætti að hverfa. Verðið sem gefið er upp í upphafi ætti að innihalda allt það helsta. 

„Þannig þú gætir þá í raun og veru borið saman sambærilegt flug. Kannski ekki með mat, það væri hægt að bæta því við aukalega eða eitthvað slíkt, en þetta allra helsta, það að fá sæti í vélinni, að tékka inn, vera með í það minnsta handfarangur eða eitthvað svoleiðis, að það sé allt saman innifalið í því verði sem er uppgefið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×