Körfubolti

Pavel: Þetta gerðist full auðveldlega fyrir minn smekk

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pavel er að gera góða hluti á Króknum.
Pavel er að gera góða hluti á Króknum. Vísir/Hulda Margrét

Pavel Ermolinskij var gríðarlega ánægður með sigur lærisveina sinna í Tindastól gegn Haukum í kvöld. Stólarnir voru þar með að vinna sinn fjórða leik í röð.

„Þetta er bara virkileg ánægja. Það er langt síðan ég hef sigrað hérna jafnan leik, búinn að vinna og tapa tiltölulega örugglega einhvern veginn og þetta var fyrsti jafni leikurinn í langan tíma. Að standa uppi sem sigurvegari var virkilega gaman og strákarnir stóðu sig virkilega vel í kvöld,“ sagði Pavel þegar hann ræddi við blaðamann Vísis eftir leik.

Tindastóll byggði upp ágæt forskot í fyrri hálfleiknum en gaf eftir í þriðja leikhluta.

„Hvað orskar það? Þetta er körfuboltaleikur,þetta er það sem gerist. Eitt liðið fer upp og svo kemur hitt liðið. Þetta gerðist kannski full auðveldlega fyrir minn smekk, það er ekkert óeðlilegt við það að forysturnar fari upp og niður og þetta var ekkert stórmál þannig séð. Við brugðumst við og tókum bara þátt í jöfnum og góðum körfuboltaleik og annaðhvort liðið þurfti að vinna, það er saga leiksins,“ bætti Pavel við.

Ertu ánægður með hvar liðið þitt er statt núna á þessum tímapunkti?

„Ég held það, ég held að þetta hafi verið mikilvægur leikur fyrir okkur, sérstaklega því við höfum og erum að leita að þessari flugbraut þar sem við komumst á einhvern svona stað með sjálfstraust og svona jákvæðni. Það gerist stundum bara í einum svona leik og einum svona fjórðung jafnvel. Þetta gæti verið leikur fyrir okkur þar sem við getum hugsað í framtíðinni, já hérna byrjaði þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×