Körfubolti

Grindavík hélt KR á lífi en Keflavík gæti fellt KR-inga í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justas Tamulis og félagar í KR berjast fyrir lífi sínu í deildinni í kvöld.
Justas Tamulis og félagar í KR berjast fyrir lífi sínu í deildinni í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Tap Stjörnumanna í Grindavík í gærkvöldi þýðir að KR-ingar eru enn ekki fallnir úr Subway deild karla í körfubolta.

Grindvíkingar héldu því smá lífi í úrvalsdeildardraumum Vesturbæinga sem þurfa þó áfram að vinna alla fimm síðustu leiki sína auk þess að treysta á önnur úrslit.

KR getur enn náð Stjörnunni því liðin eiga eftir að mætast og Stjarnan var eina liðið með fjórtán stig sem KR getur lagað innbyrðis stöðu sína gegn.

Grindavík og Þór Þorlákshöfn komust bæði í sextán stig með sigri sínum í gærkvöldi sem þýðir að KR-liðið getur ekki lengur náð þeim að stigum.

KR tapaði báðum leikjum sínum á móti Hetti sem er líka með fjórtán stig eins og Stjarnan.

KR féll því ekki í gær af því að Stjarnan tapaði en þeir falla í kvöld takist þeim ekki að vinna Keflavík í Frostaskjólinu.

Leikur KR og Keflavíkur hefst klukkan 18.15 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

  • Innbyrðis staða KR gegn liðunum í neðri hlutanum:
  • Á móti ÍR: 0-1 og -7
  • Á móti Stjörnunni: 0-1 og -11
  • Á móti Hetti: 0-2 og -12



Fleiri fréttir

Sjá meira


×