„Alltaf þegar maður fer í gegnum svona umskipti, þá eru ný tækifæri til að setja nýja rútínu og við sögðum: Eitt af því sem við ætlum að gera í Bandaríkjunum er að við ætlum að gera eitthvað skemmtilegt hverja einustu helgi saman sem fjölskylda.“ Ólöf segir að heima á Íslandi hafi þau hins vegar verið að gera margt - án barnanna. Við flutningana hafi þau því gert með sér hálfgerðan lífssamning um að hafa það gaman - með krökkunum. „Þetta er pínu svona eins og Kaninn segir, þetta work hard, play hard módel“ segir Einar.
Í nýjasta þætti af „Hvar er best að búa?“ heimsækir Lóa Pind Aldísardóttir Einar, Ólöfu og þrjá af sonum þeirra til háskólaborgarinnar New Haven í Bandaríkjunum. Þau fluttu þangað í miðjum heimsfaraldri - af því Einar vildi fara með sprotafyrirtækið sitt Activity Stream nær bandaríska afþreyingarmarkaðnum og leikhúsunum á Broadway. Strategían heppnaðist, en þó ekki eins og hann hafði reiknað með eins og fram kemur í þættinum sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld eftir fréttir.
Stiklu úr þættinum má sjá í spilaranum hér að neðan:
Í þáttaröðinni heimsækir Lóa fólk og fjölskyldur sem framfleytir sér á fiðluleik, taílenskri bardagalist, lækningum, veitingastaðarekstri, heimasíðugerð, forritun, frumkvöðlastarfsemi og almennri athafnasemi og býr í stórborgum, litlum borgum, sveit, húsbíl, fjallakofa og þorpi á La Palma, Menorca og Jótlandi og í Ísrael, New Haven, Edinborg, Tékklandi og Taílandi.
Framleiðandi og leikstjóri þáttanna er Lóa Pind Aldísardóttir, myndatökumaður er Ívar Kristján Ívarsson, klippingu önnuðust Sigurður Kristinn Ómarsson og Hjördís Ósk Kristjánsdóttir hjá Obbosí. Framleitt af Lóu Production fyrir Stöð 2.