Gífurlegir bardagar hafa verið í og við borgina Bakhmut í Donetsk héraði í Úkraínu undanfarna mánuði en Rússar leggja mika áherslu á að ná borginni á sitt vald. Rússar hafa aldrei náð að leggja allt héraðið undir sig, þótt þeir þykist hafa innlimað það, og þótt Bakhmut sé ekki hernaðarlega mikilvæg er borgin vel staðsett upp á frekari landvinninga
„Hersveitum Wagner hefur tekist að umkringja Bakhmut. Það er aðeins einn vegur eftir til og frá borginni. Hringurinn er að lokast. Áður áttum við í bardögum við úkraínska atvinnuhermenn en í dag erum við í vaxandi mæli að berjast við börn og gamalmenni," sagði Prigozhin hróðugur í ávarpi sem sagt er að tekið hafi verið upp við borgina.

Úkraínumenn segjast hins vegar enn halda uppi vörnum í Bakhmut og því til staðfestingar kom einn æðsti yfirmaður úkraínska hersins þangað í dag. Yfirmaður Wagner málaliðanna segir að þeir sem enn berðust gegn Rússum í Bakhmut hefðu aðeins einn til tvo daga til að flýja eða deyja ella.
Rússar hafa einnig haldið uppi látlausum eldflaugaárásum á borgina Kupiansk í Kharkiv héraði undanfarna daga. Úkraínumenn hröktu rússneskar hersveitir úr héraðinu september. Héraðsfirvöld í Kharkiv skipuðu barnafjölskyldum og fólki með skerta hreyfigetu í dag að yfirgefa Kupiansk.

Í dag lögðu Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu Egils Levits forseti Lettlands blómsveiga að leiðum fallinna hermanna í borginni Lviv í vesturhluta Úkraínu. Zelenskyy hvatti bandamenn til að hraða sendingum þungavopna til landsins.
„Við þurfum einnig vopnakerfi, skotfær og helling af stórskotum. Við þurfum ekki á þessu að halda til að gera árásir á landsvæði innan Rússlands heldur til að henda þeim út af landsvæðum okkar, sem hlýtur að vera sanngjarnt. Það sama á við um þörf okkar fyrir flugvélar," sagði forseti Úkraínu í dag.